Fréttaviðtal við forseta sameinaðs þings
Fimmtudaginn 21. desember 1989


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Í upphafi þessa fundar vill forseti taka eftirfarandi fram:
    Allt frá því að forseti tók við embætti fyrir rúmu ári hefur hann átt hið ágætasta samstarf við þingmenn alla, stjórnarþingmenn jafnt sem stjórnarandstöðu, enda telur forseti sig hafa reynt að láta eitt yfir alla ganga í störfum þingsins. Það vita þeir hv. þm. sem forsetastörfum hafa gegnt að nokkuð mæðir á forsetum sem jafnframt því að vera starfandi þingmenn til jafns við aðra hv. þm. skulu einnig hafa yfirumsjón með þinghaldi og starfsemi þingsins. Það er engin nýlunda að miklar annir upphefjist síðustu vikur fyrir jólahlé. Svo hefur einnig verið nú.
    Það kemur í hlut forseta að vera talsmenn þingsins. Til þeirra er leitað þegar spurst er fyrir um verkstjórn og framvindu mála í þinginu. Viðtal fréttamanns Ríkisútvarpsins við forseta sameinaðs þings 18. des. sl. hefur valdið stærsta stjórnmálaflokki landsins sárindum sem ekki var ætlunin að efna til. Kvöldið áður hafði forseti raunar gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að leggja mál sín of seint fram svo að þau mættu að lögum verða fyrir jólahlé. Forseti taldi sig því ekki halla þar á neinn. Hafi forseti hagað orðum sínum á þann veg var alls ekki um ásetning að ræða. Umræða sú sem fram fór hér í fyrrakvöld var því langt umfram tilefni. Þung orð féllu og mun forseti ekki erfa þau og vonar að hið sama gildi um umrætt viðtal.
    Forseti vill þakka öllum hv. þm. góða og heiðarlega samvinnu við afgreiðslu þingmála í gær og vonar að svo megi einnig verða í dag.