Fjáraukalög 1989
Fimmtudaginn 21. desember 1989


     Frsm. meiri hl. fjvn. (Pálmi Jónsson):
    Virðulegi forseti. Þegar 2. umr. um frv. til fjáraukalaga, sem hér er á dagskrá, hófst í fyrradag voru fluttar nokkrar athyglisverðar ræður. Fyrst ber að telja ræðu hv. formanns fjvn. en í þeirri ræðu fólst þungur áfellisdómur yfir fjármálastjórn hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnar á þessu ári.
    Í öðru lagi vil ég nefna ræðu hv. 1. þm. Vesturl., varaformanns fjvn., sem sagði að ríkisstjórninni bæri að halda á málum á þann hátt að efna ekki til ófriðar við sveitarfélögin í landinu. Þetta er athyglisvert vegna þess að á sama tíma hafði meiri hl. fjvn. lagt fram innan fjvn. tillögur um það að brjóta samkomulag sem lá að baki verkaskiptalaganna sem samþykkt voru á síðasta Alþingi upp við þessa fjárlagagerð. Vegna mjög harðrar andstöðu Sjálfstfl. var þessi fyrirætlan hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórnar knúin til baka.
    Í þriðja lagi þykir mér rétt að vitna til ræðu hæstv. menntmrh. sem var að ýmsu leyti athyglisverð. Hann hóf máls á því að segja að mikilvægt væri að sæmilegur friður gæti tekist um vinnulag. Það var einmitt þetta sem ég lagði mikla áherslu á í minni ræðu og einnig formaður fjvn., að varðandi það mál sem hér er til meðferðar hefur tekist góð samstaða um vinnulag og vinnubrögð í Alþingi og um þá skipan og form sem þessi mál hafa verið færð í.
    Ég vil einnig nefna það að hugleiðingar í ræðu hæstv. menntmrh. voru að ýmsu leyti athyglisverðar, með öðrum hætti, þar á meðal þær hugleiðingar hans sem oft hafa komið fram frá öðrum, að auka beri ábyrgð einstakra ráðuneyta og einstakra stofnana í fjármálum og að það þurfi að ná betra sambandi á milli fagráðherra og fjárveitingavaldsins, þar á meðal á milli einstakra fagráðherra og hæstv. fjrmh. Þetta hygg ég að séu orð að sönnu og að ýmsu leyti var ræða hæstv. menntmrh. þess efnis að hún var eftirtektarverð.
    Það sem vakti hins vegar allra mesta athygli í þessari umræðu var ræða hæstv. fjmrh. Ég hafði í minni ræðu, í rökstuddu máli, gagnrýnt fjármálastjórn hæstv. fjmrh. á þessu ári eða frá því hann tók við því starfi sem hann gegnir nú. Gagnrýni mín beindist einkanlega að tveimur þáttum. Í fyrsta lagi að yfirlýsingar hæstv. ráðherra varðandi meðferð ríkisfjármála og varðandi samskipti fjmrh. við fjvn. og Alþingi hafa hvað eftir annað og ítrekað reynst markleysa. Í öðru lagi að það fjáraukalagafrv. sem hér er á dagskrá væri þungur dómur um þá fjármálastjórn sem rekin hefur verið af hæstv. fjmrh. síðan hann tók við embætti. Það væri sönnun þess að fjármál ríkisins hefðu í höndum þessa fjmrh., þrátt fyrir allar hans yfirlýsingar, farið úr böndunum.
    Það sannaðist síðan að þessi rökstudda gagnrýni mín hafði komið við kaunin á hæstv. fjmrh. og það sannaðist á hæstv. fjmrh. að sannleikanum verður hver sárreiðastur. Eftir að ég hafði lokið máli mínu spratt hann upp eins og naðra og þaut upp í ræðustólinn og hellti yfir mig reiðilestri sem ég hygg að öllum sem á hlýddu verði nokkuð minnisstæður hér á hinu háa

Alþingi. Slíkur reiðilestur af hálfu hæstv. fjmrh. er einsdæmi. Í hans máli kom fram að í 70 ár hefði verið vanrækt að vinna þau verk sem eðlilegt var að fram kæmu af hálfu fjmrh. og í ríkisfjármálum. Og í 70 ár mátti skilja af hálfu hæstv. fjmrh. að ég og Sjálfstfl. bærum þar langsamlega þyngsta ábyrgð eða raunar lengur en Sjálfstfl. hefur starfað og í lengri tíma en líf mitt nær.
    Þessi ræða hæstv. fjmrh. fól það m.a. í sér að Sjálfstfl. hefði vanrækt að leggja fram fjáraukalagafrv. á sinni tíð og ekki komið fram jafnsjálfsögðum hlut eins og að afgreiða fjáraukalagafrv. í langan tíma, m.a. þann tíma sem flokksbróðir hæstv. fjmrh., hv. þm. Ragnar Arnalds, gegndi embætti fjármálaráðherra í rúmlega þrjú ár. Það var allt á ábyrgð Sjálfstfl. að mati hæstv. fjmrh. Ólafs Ragnars Grímssonar. Þennan þátt málsins ætla ég ekki að rekja lengur vegna þess að hv. 1. þm. Reykn. svaraði þessu þegar í umræðunni í fyrradag með glöggum og skýrum hætti og hrakti rangfærslur hæstv. fjmrh.
    Reiðilestur hæstv. fjmrh. var í fleiri greinum því marki brenndur að þar fór ekki alltaf saman við það sem er sannleikanum samkvæmt, enda er það svo með þennan hæstv. ráðherra að honum eru vegir sannleikans ekkert sérstaklega kunnir og honum verður oft villugjarnt á þeim vegum. Sennilega er hann kunnugri á öðrum leiðum.
    Ég ætla að grípa á örfáum atriðum úr þessu máli hæstv. ráðherra sem, eins og fram hefur komið, var skammarræða en ekki svör. Það var reiðilestur en ekki rök. Í máli hans voru öll einkenni þess manns sem grípur til þess að hella úr skálum reiði sinnar þegar rökin þrýtur. M.a. sagði hæstv. ráðherra að ég hefði gagnrýnt það að frv. til fjáraukalaga hefði verið flutt. Þetta er rangt. Þess í stað og alveg þvert á móti fór ég viðurkenningarorðum um hæstv. fjmrh. fyrir að hafa flutt þetta frv. og sagði: ,,Það er ástæða til þess að fara um það viðurkenningarorðum sem horfir til betri vegar.`` Gagnrýnisefnin eru mörg og þau eru ærin sem þurfa að koma í dagsljósið varðandi störf þessa ráðherra á öðrum vettvangi. Þau gagnrýnisefni eru sannarlega ærin. Það sem hæstv. ráðherra sagði um þetta efni er því staðlausir stafir og alveg gagnstætt sannleikanum.
    Hæstv. ráðherra sagði að ég hefði fullyrt í mínu máli að greiddar hafi verið úr ríkissjóði aukafjárveitingar meðan fjáraukalagafrv. var til meðferðar í fjvn. og Alþingi. Þetta er rangt. Ég sagði ekki eitt einasta orð um þetta efni. Þá sagði hæstv. ráðherra að það væri rangt og það væru ósannindi að af 8,8 milljarða kr. auknum útgjöldum ríkissjóðs á þessu ári umfram fjárlög væru aðeins 285 millj. sem Alþingi gæti haft áhrif á vegna þess að öllum öðrum greiðslum eða um 8,5 milljörðum hafði þegar annað tveggja verið ráðstafað ellegar búið var að binda þær fastmælum með loforðum.
    Um leið og hæstv. ráðherra ber á mig ósannindi varðandi það sem ég sagði um þetta efni er hann einnig að bera ósannindi á hv. formann fjvn. Sighvat Björgvinsson. Ég hygg að allir viti að ef við leggjum

saman, við hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, trúi nú fleiri okkur tveimur en hæstv. fjmrh. Og það kom enda í ljós þegar hæstv. menntmrh. flutti sína ræðu að þessi tala er raunar lægri vegna þess að í hans máli komu fram athugasemdir þess efnis að hann væri þegar búinn að binda fastmælum fjárhæð sem nam 30 millj. kr. og á að renna til Þjóðarbókhlöðunnar. Hér er því einungis um að ræða 250 millj. sem Alþingi gat í raun haft áhrif á af þeirri fjárhæð sem hæstv. fjmrh. er að fara fram á að Alþingi veiti sína blessun yfir um auknar greiðslur úr ríkissjóði umfram fjárlög á þessu ári. Þetta er staðreynd málsins og allt tal hæstv. fjmrh. um að ég hafi farið með ósannindi um þetta efni er fleipur út í loftið og rangt, enda varð honum í þessu efni sem víðar í hans máli, í hans reiðilestri, hált á sannleikanum.
    Þá sagði hæstv. fjmrh. að ég hefði gagnrýnt hann fyrir það form sem valið hefði verið á frv. þegar það var lagt fram og það er út af fyrir sig rétt. Ég gagnrýndi það form sem á því var vegna þess að frv. var ekki þinghæft. Ég tel hins vegar að vel hafi verið að verki staðið í fjvn. og má vel vera, eins og hv. þm. Egill Jónsson sagði hér áðan, að það hafi ekkert verið óheppilegt að þetta form skyldi valið á frv. til þess að fjvn. yrði knúin til þess að leggja í það svo mikla vinnu sem raun varð á. En þetta lofar ekki meistarann. Þetta lofar ekki höfund verksins. Þetta lofar ekki það að hæstv. fjmrh. skyldi leggja fyrir Alþingi óhæft frv.
    Að sjálfsögðu gat hæstv. fjmrh. ekki brugðist við því á nokkurn hátt að fjvn. tæki þetta mál og umturnaði því þannig að það yrði hægt að leggja það fyrir Alþingi og hægt að greiða atkvæði um hverja einustu grein eins og venjur gera ráð fyrir. Hann gat á engan hátt snúist við því öðruvísi en með þeim hætti að leggja yfir það blessun sína. Þetta sannar hins vegar ekki það að hægt sé að lofa verkið eins og það var fram lagt í höndum þessa hæstv. ráðherra.
    Ég held að ekki sé ástæða fyrir mig að taka fleiri dæmi upp úr ræðu og reiðilestri þessa hæstv. ráðherra sem bar öll merki þess að annað en röksemdir stjórnaði máli hans. Þar stjórnaði sú tilfinning og þær geðshræringar sem hlutust af því að komið hafði verið við kaunin á hæstv. ráðherra með rökstuddri gagnrýni og það sannaðist á honum að sannleikanum verður hver sárreiðastur. Sá sem þannig fer upp í ræðustól á hinu háa Alþingi hleypur á sig og það gerði hæstv. ráðherra sannarlega í þessari ræðu.