Fjáraukalög 1989
Fimmtudaginn 21. desember 1989


     Frsm. minni hl. fjvn. (Pálmi Jónsson):
    Virðulegi forseti. Mér er ljóst að hér er skammur tími til stefnu og mun taka tillit til tilmæla hv. síðasta ræðumanns. Ég er honum sammála um þýðingu þess að þetta frv. sé afgreitt. Mér fannst hins vegar ástæða til að segja hér örfá orð vegna skringilegrar ræðu hæstv. samgrh. og þá í fyrsta lagi til þess að staðfesta það sem fram kemur í nál. meiri hl. fjvn. og hæstv. fjmrh. bar brigður á. Fjvn. klofnaði í afstöðu sinni til þessa máls og meiri hl. fjvn. flytur allar brtt. við þetta mál. Á hinn bóginn vil ég greina frá því að hvert orð sem hv. formaður fjvn. sagði um meðferð vegamála í sambandi við afgreiðslu meiri hl. í þessu plaggi er rétt. Það er þess vegna ekki rétt sem hæstv. samgrh. sagði hér áðan að þessi mál hafi verið rædd í þingmannahópum kjördæmanna. Og það er hvert orð satt sem ( Gripið fram í: Það sagði ég ekki.) hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði um mín orð varðandi þetta mál og hugsanlega meðferð þess í mínu kjördæmi. Það er einnig sérkennilegt sem fram kom í máli hæstv. ráðherra að nýr meiri hl. á Alþingi, eins og hann kallaði það, geti breytt fyrri ákvörðun. Nú mega kannski vera deilur um það hvort nýr meiri hl. sé á hv. Alþingi. Ég lít ekki svo á. En þó nýr meiri hl. væri á Alþingi getur hæstv. ríkisstjórn ekki breytt ákvæðum vegáætlunar né ákvæðum fjárlaga án þess að fara með málið í gegnum löggjafarsamkomuna. Engin heimild er til þess, hvorki fyrir hæstv. samgrh. né hæstv. ríkisstjórn, að skera niður fé til einstakra verka upp á eindæmi. Þess vegna verður málið að hljóta staðfestingu Alþingis og fá þá eðlilegu meðferð í þingmannahópum sem vegamál ævinlega hafa hlotið svo þetta sé mögulegt.
    Ég er auðvitað ekkert hissa á því, miðað við starf þessa hæstv. ráðherra, að hann virtist vera fús til þess að skera niður á fleiri sviðum vegamála en á þessu. Staðreyndir málsins eru þær að Alþingi hefur afgreitt vegáætlun og henni verður ekki breytt nema með nýrri ákvörðun Alþingis.
    Þá sagði hæstv. ráðherra að óheppilegt væri að breyta stjfrv. sem hefðu meiri hl. á Alþingi. Hver breytir slíku stjfrv. nema sem hefur meiri hl. á Alþingi? Þessi orð og ýmis önnur fleiri voru mjög furðuleg í ræðu þessa hæstv. ráðherra og ýmsar hugleiðingar hans í þessari ræðu virtust bera keim af því sem hefur mátt merkja í störfum þessarar hæstv. ríkisstjórnar að ríkisstjórnin sjálf geti ákveðið um greiðslur úr ríkissjóði, ákveðið að skera niður fé til einstakra verka. Nánast sé formsatriði að fá það afgreitt á Alþingi vegna þess að ríkisstjórnin hafi meiri hl. En sá meiri hl. sem stendur á bak við hæstv. ríkisstjórn þarf þá að vera samþykkur því sem hæstv. ríkisstjórn er að hafast að í þessum efnum.
    Ég skal ekki tefja hér tímann. Ég tek að sjálfsögðu undir það sem kom fram í lokin á ræðu hæstv. samgrh. að ástæða er til þess á nýju ári að fjalla um þessi mál miklu nánar og betur, hvernig hagað skuli starfsháttum við fjármál ríkisins og greiðsluheimildir úr ríkissjóði. Einmitt til þess að þjóna því markmiði

hefur fjvn. í heild lagt hér fram í dag frv. sem hæstv. ráðherra ætti vel að kynna sér.