Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Þann 13. júní 1985 samþykkti Alþingi sérstaka þál. um takmörkun á umsvifum erlendra sendiráða. Þar er m.a. vitnað til laga frá árinu 1971 um stjórnmálasamskipti og hinn svokallaða Vínarsamning sem er hluti af þessum lögum um stjórnmálasamskipti milli ríkja. Í 41. gr. Vínarsamningsins segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Það er skylda allra þeirra sem njóta forréttinda og friðhelgi að virða lög og reglur móttökuríkisins en þó þannig að forréttindi þeirra og friðhelgi skerðist eigi. Á þeim hvílir einnig sú skylda að skipta sér ekki af innanlandsmálum þess ríkis.``
    Og í öðru lagi segir þar: ,,Öll opinber erindi sem móttökuríkið varða og falin eru sendiráðinu af sendiríkinu skuli rekin hjá utanríkisráðuneyti móttökuríkisins eða hjá öðru ráðuneyti sem samkomulag verður um eða fyrir milligöngu þeirra.``
    Ég minni á þetta hér í tilefni þess að þann 17. des., sl. sunnudag, birtist í Morgunblaðinu viðtal við nýskipaðan sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Charles Cobb að nafni, en hann var áður aðstoðarviðskiptaráðherra í stjórn Bandaríkjanna og raunar þekktur íþróttamaður og grindahlaupari fyrr á árum samkvæmt upplýsingum í þessu viðtali. Í Morgunblaðinu 17. des. fjallar sendiherrann um ýmsa þætti íslenskra innanríkismála og þar koma fram að mínu mati gróf afskipti af íslenskum innanlandsmálum, bæði að því er varðar hugmyndir um erlent álver hér á landi, svo og um nýjan hernaðarflugvöll. Spurningum Morgunblaðsins um aðstoð sendiráðsins, ef farið verður út í samningaviðræður við bandaríska fyrirtækið Alumax, svarar sendimaðurinn m.a. þannig:
    ,,Ég hef átt þrjú samtöl við stjórnarformann Alumax að undanförnu. Ég hef átt tvö samtöl við Jón Sigurðsson iðnrh. og ég ráðgeri að bjóða forsvarsmönnum
Alumax og iðnrh. Íslands og hans sérfræðingum hingað þegar þeir koma til samningaviðræðna við ráðherrann.`` Einnig segir hann: ,,Ég er bjartsýnn á að hægt verði að vekja áhuga bandarísks álfyrirtækis á þátttöku, hvort sem það verður Alumax eða eitthvert annað fyrirtæki.``
    Þá spyr blaðamaðurinn hvort sendiherrann sjái fyrir sér miklar breytingar á hlutverki Bandaríkjamanna í Evrópu á næstunni og sendiherrann svarar: ,,Það er nánast öruggt að það verður umtalsverð fækkun í herliði Bandaríkjamanna í NATO-löndum á meginlandi Evrópu.`` Fyrir Ísland sér sendiherrann hins vegar annað hlutskipti. Þar þarf að hans mati að fjölga hernaðarmannvirkjum og nú er óskin íklædd eftirlitshlutverki, eftirliti með afvopnun. Þar segir --- og ég lýk þessu með tilvitnun í þann þátt viðtalsins, virðulegur forseti: ,,Að gera eftirlitsmöguleikana sem besta er auðvitað í þágu Íslands sem og annarra NATO-þjóða. Því tel ég mikilvægt að hér verði tekin ákvörðun um byggingu nýs alþjóðlegs flugvallar. Þannig verður þörfinni fyrir aukið og bætt eftirlit

mætt. Auk þess tel ég að bygging slíks flugvallar hér á landi geti þjónað þýðingarmiklu hlutverki fyrir Ísland í efnahagslegu tilliti.`` Og hann segir þarna í framhaldinu: ,,Staðreyndin er hins vegar sú að ef Ísland tekur ekki af skarið og ákveður þá forkönnun sem rætt hefur verið um gæti Ísland misst af tækifærinu og ákvörðun verið tekin af NATO um að staðsetja flugvöll annars staðar, svo sem á Grænlandi.``
    Ég leyfi mér, virðulegur forseti, af þessu tilefni að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., m.a. með vísan í Vínarsamninginn: Hvert er viðhorf forsrh. til ummæla bandaríska sendherrans í viðtali við Morgunblaðið 17. des. sl. að því er varðar erlent álver og byggingu nýs hernaðarflugvallar á Íslandi? Og í öðru lagi: Hver verða viðbrögð ríkisstjórnarinnar af þessu tilefni?