Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Hér er hreyft við ummælum sem gefin voru í persónulegu viðtali Morgunblaðsins við sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til þess að gera athugasemdir við þau sjónarmið sem fram koma í þessu persónulega viðtali og tel ekki ástæðu til að líta á þau sem afskipti af íslenskum innanríkismálum. Það er vissulega rétt að skv. 41. gr. Vínarsamningsins hvílir sú skylda á sendimönnum erlendra ríkja að skipta sér ekki af innanlandsmálum þess ríkis þar sem þeir eru sendimenn. En hér er um það að ræða að sendiherrann fjallar á persónulegan hátt um tvö mál sem hafa verið í sviðsljósi --- og eru vissulega umdeild hér á landi, eins og fram kom hjá forsrh. --- en þau varða samskipti Íslands og Bandaríkjanna með nokkrum hætti eða gætu gert það. Ég sé því ekki ástæðu til þess að efna til umræðna um þau hér á Alþingi sérstaklega eða að þau gefi tilefni til sérstakra viðbragða af hálfu ríkisstjórnarinnar, en eins og kom fram hjá forsrh. þá hefur þetta mál ekki verið rætt innan hennar, m.a. vegna fjarveru utanrrh. Það er vissulega rétt að hér er vandmeðfarið mál á ferðinni og ástæða til þess að huga að því hvernig á því er haldið.