Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir málflutning hæstv. iðnrh., sitjandi utanrrh. Eins og hann kom hér inn á er hér um persónulegt viðtal að ræða og ekkert í sjálfu sér við það að athuga. Það sem mér þykir athyglisvert við viðtalið, eins og fram hefur komið, er að hér er greinilega sannur íþróttamaður að ræða málin um hagsmuni Íslands og um leið náttúrlega hagsmuni síns lands. Sendiherrann er að ræða um aukin viðskiptatengsl þjóðanna, hann er að ræða um aukna samvinnu í menntamálum, hann er að ræða um aukna samvinnu í umhverfismálum, um afvopnun á Norður-Atlantshafi og kjarnorkuvopnalaus svæði þar. Það er einnig hlutverk sendiherra og sendiráða að stuðla að auknum viðskiptum landa og liðka fyrir þeim. Það er því ekkert óeðlilegt við það að hann lýsi því yfir að hann vilji stuðla að slíku varðandi álsamninga. Og í síðasta lagi lýsir hann sinni persónulegu skoðun á varaflugvallarmáli og enn á ný vil ég segja að það er ekkert athugavert við slíkt. Ég lít á þetta sem persónulegt viðtal við manninn en ekki sem viðtal við sendiherra Bandaríkjanna sem slíkan og get því ekki tekið undir þá gagnrýni sem fram kemur hjá flm. þessarar fyrirspurnar.