Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Þessi umræða sem hér fer fram út af hér um bil viku gömlu viðtali við sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi sýnist mér að varpi fyrst og fremst ljósi á það hvernig helstu forustumenn stjórnarflokkanna leggja sig fram við að greiða fyrir framgangi helstu þingmála ríkisstjórnarinnar.
    Vegna efnis málsins þykir mér rétt að taka fram að ég hef ekki lesið það viðtal sem hér er vitnað til en miðað við þær tilvitnanir sem hér voru lesnar upp þá get ég tekið undir það sjónarmið sem fram kom hjá hæstv. viðskrh., starfandi utannrh., og þarf ekki að fara um það mikið fleiri orðum. Mér sýnist á hinn bóginn að yfirlýsing hæstv. forsrh. sé býsna marklaus eða marklítil ef henni fylgja ekki einhver frekari viðbrögð. Þess vegna vil ég varpa þeirri spurningu fram til hæstv. forsrh. hvort hann ætli að beita sér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að sú aðstoð varðandi hugsanlegt samstarf við erlent áliðjufyrirtæki, sem sendiherrann virtist hafa verið að bjóða fram í þessu viðtali samkvæmt þeirri tilvitnun sem hér var lesin, verði afþökkuð. Ætlar hæstv. forsrh. að beita sér fyrir því, vegna þess að hann telur að hér hafi verið brotið gegn eðlilegum samskiptareglum, að slík aðstoð verði afþökkuð sem ég þykist sjá að sendiherra Bandaríkjanna hafi verið að bjóða fram? Ef svo er ekki þá er lítið að marka þá yfirlýsingu sem hér var gefin að mínu mati af hálfu hæstv. forsrh.