Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Ég dreg ekki í efa það sem hér hefur komið fram hjá ýmsum hv. þm., og reyndar má lesa út úr þessu viðtali, að nýskipaður sendiherra Bandaríkjanna sé vel meinandi maður og margt gott um hann. En ég tek undir það bæði með forsrh. og hv. 6. þm. Norðurl. e. að hér verða menn að greina á milli þess að hafa einhverja skoðun á þeim viðfangsefnum sem sendiherrann fjallar um og hins hvort það sé eðlilegt að hann blandi sér í okkar innri mál með þeim hætti sem hann gerir. Við óskum ekki eftir því að erlendir sendimenn geri það. Við þurfum ekki á hjálp að halda við það að móta okkar stefnu til að mynda hvað varðar uppbyggingu flugsamgöngumannvirkja í landinu. Við erum einfær um það, Íslendingar, og það er hluti af okkar fullveldi að hafa rétt til þess að gera það í friði án þess að erlendir sendimenn sem hér sitja í friðhelgi séu að reyna að blanda sér í þau mál. Það er alveg augljóst mál þar sem í hlut á til að mynda spurningin um uppbyggingu herflugvallar hér í landinu, og það þarf sendiherra Bandaríkjanna að vita hafi hann ekki áttað sig á því nú þegar, að það hefur verið deilumál í íslenskum stjórnmálum og það er ekki heppilegt að hann gangi fram opinberlega á völlinn og gefi um það mál yfirlýsingar, færi rök fyrir tilteknum aðgerðum í því máli eins og hann gerir. Það er óviðeigandi íblöndun í okkar mál og ég tek undir það sem hæstv. forsrh. sagði að það þarf að koma því til skila upp á síðari tíma og öðrum til viðvörunar.
    Ég tek það að vísu fram að þessi íblöndun er ekki af alvarlegum toga miðað við ýmislegt það sem gerist í heiminum. Hún er tiltölulega mild miðað við þá íblöndun sem íbúar Panama fá að upplifa á sjálfum sér þessa dagana af hálfu þessarar sömu þjóðar sem nefndur sendiherra er fulltrúi fyrir.