Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir að leyfa þessa umræðu hér og tek það fram vegna orða sem hér hafa fallið að ósk um hana kom fram sl. þriðjudag, strax og ég hafði lesið umrætt viðtal, og það er nú ekki viku gamalt ef ég kann að telja dagana.
    Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir viðbrögð hans og þær yfirlýsingar sem hann hefur hér gefið varðandi þetta mál. Þar tel ég að hafi verið rétt á máli tekið. Hæstv. forsrh. lýsir því hér yfir á Alþingi, sem er réttur staður til þess, að hann telji eðlilegt að sendiherrann verði kallaður fyrir og bent á þau mistök sem honum hafi á orðið í ljósi íslenskra laga og alþjóðasamninga.
    Ég tek undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram í umræðunni að það verður ekki gerður neinn greinarmunur á sendiherra Bandaríkjanna sem einkapersónu og því verkefni sem hann vinnur að hér á vegum sinnar ríkisstjórnar. En meginatriðið er það, og það eru varnaðarorð af minni hálfu, að menn láti það ekki gerast á Alþingi Íslendinga að erlendir aðilar, hverjir svo sem þeir eru, geti verið að spila mönnum hér sundur og saman út frá því hvort þeim hentar eða hvort þeir taka undir þau sjónarmið sem þeir eru að túlka. Við verðum að reyna hér á Alþingi Íslendinga að gæta okkar réttar sem sjálfstæðs ríkis hver svo sem að okkur vegur í þeim efnum.
    Þingsályktuninni, sem samþykkt var hér samhljóða á Alþingi 13. júní 1985 og byggði á þáltill. sem ég flutti hér, var ekki beint gegn Bandaríkjunum sérstaklega. Ýmsir túlkuðu hana sem svo að það væri verið að vega að sovéska sendiráðinu þar sem verið var að hvetja til þess að takmörkuð yrðu umsvif erlendra sendiráða í landinu og bent á það misvægi sem væri í þeim efnum. Ég tel fyllstu ástæðu til þess fyrir utanrrh. Íslands og íslensk stjórnvöld að athuga þau mál í ljósi þeirrar samþykktar sem hér var gerð 13. júní 1985.