Fjárlög 1990
Fimmtudaginn 21. desember 1989


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Ég ætla nú að leyfa mér í þessu heimilislega, svo ekki sé nú sagt fjölskyldulega, andrúmslofti sem hér er orðið að segja aðeins fáein orð út af einu tilteknu efnisatriði þessa fjárlagafrv. sem ég þarf að gera nokkrar athugasemdir við. En ég byrja fyrst á því að segja að það er svo nú sem jafnan endranær að það er létt verk að tína fram þá liði í þessu fjárlagafrv. sem mættu vera myndarlegri og það gjarnan miklu myndarlegri. Ég hygg að flestir hv. þm. eigi sér einhver þau áhugasvið eða áhugamálaflokka sem þeir telji naumt skorna. Þannig er það til að mynda með ýmis málefni landsbyggðarinnar og framkvæmdafjárveitingar til vegamála, flugvallargerðar og slíkra hluta, hafnamála o.s.frv. Víst þætti mörgum æskilegt að geta lagt þar meira til málanna en við verðum að sæta því eins og endranær að við erum að skipta mjög takmörkuðum sjóðum og það er í mörg horn að líta, margs þarf búið við, eins og hér var sagt af hv. síðasta ræðumanni svo fallega. Og því breytum við ekki hversu mikill sem hugur okkar er til slíkra hluta.
    Varðandi ummæli sem hér hafa fallið hjá fleiri en einum hv. þingmanni í sambandi við fjárveitingar til vegamála er ekki annað um það að segja en að það er að sjálfsögðu miður að ekki skuli takast að standa að fullu við þá samþykktu vegáætlun sem hér var afgreidd á Alþingi sl. vor. En síðan hafa einfaldlega forsendur breyst og það er ljóst að það eru ekki efnislegar forsendur til þess að standa við þá niðurstöðutölu sem sú vegáætlun byggði á. Hún var reist á þeim grunni að fullnýta hina mörkuðu tekjustofna og á grundvelli spár um verðlagsþróun og bensínsölu var fengin ákveðin niðurstöðutala upp á 5235 millj. kr., ef ég man rétt. Það er ljóst að nú hefur hvort tveggja gerst að verðlag hefur þróast með öðrum og aðeins hagstæðari hætti en þar var ráð fyrir gert. Bensínsala hefur og orðið minni og spár um hana eru minni þannig að það er alveg ljóst að hinir mörkuðu
tekjustofnar mundu á næsta ári, þó að þeir væru fullnýttir allt árið, ekki skila þessari tilskildu upphæð. Þegar af þeim sökum er óhjákvæmilegt að niðurstöðutala vegaútgjaldanna á næsta ári verði lægri en sú sem vegáætlunin kveður á um. En þessu til viðbótar ákvað ríkisstjórnin, til þess að ná settum markmiðum um verðlagsþróun og skatthlutföll á næsta ári, að nýta ekki alveg til fulls hina mörkuðu tekjustofna, en þeir eru að sjálfsögðu hluti af skattstofnum ríkisins og koma inn í prósentutölur um skattbyrði sem hlutfall af þjóðartekjum eða öðrum viðmiðunum eins og aðrir slíkir skattstofnar. Og þegar þetta tvennt eða þrennt er lagt saman, þ.e. sú staðreynd að verðlagsspá vegáætlunar gerði ráð fyrir 19% hækkun verðlags milli áranna 1988 og 1990 en reiknitala fjárlaganna er 16% þegar tekin er inn í spá um minni bensínsölu og ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að draga þar á ofan úr útgjöldum til vegamála

með því að nýta ekki til fulls hina mörkuðu tekjustofna, verður útkoman sú að talsverða fjárhæð vantar upp á að niðurstöðutala vegáætlunar frá sl. vori standist að fullu.
    Ég vil þó gleðja hv. þingdeildarmenn, eða mér liggur við að segja mann ef ég sleppi forseta og ávarpa þann eina áheyranda sem hér er eftir með því að fullvissa hann um að sú niðurstöðutala sem felst í brtt. meiri hl. fjvn. upp á 4575 millj. kr. þýðir í reynd nokkra raunaukningu á framlögum til vegamála á næsta ári frá þeim útgjöldum sem ráðstafað verður til þeirra mála á þessu ári og hef ég þá tekið með þær aukafjárveitingar sem fjáraukalagafrv. gerir ráð fyrir til vegamála. Okkur miðar því nokkuð á leið í þessum efnum. Hvað virðisaukaskatt snertir, hv. þm., er ekki ljóst í nákvæmum atriðum hvernig hann kemur út. Það er líklegt að hann valdi nokkurri hækkun á framkvæmdakostnaði hjá Vegagerðinni eins og fjölmörgum sambærilegum aðilum og rýri þess vegna eitthvað framkvæmdafé Vegagerðarinnar frá því sem ella hefði orðið. En ég hygg nú að þar sé ekki um nákvæm vísindi að ræða heldur áætlanir eða spár og undan því verður einfaldlega ekki vikist að þessir aðilar axli þá þær byrðar sem því fylgja eins og allir aðrir aðilar í þjóðfélaginu verða að gera við gildistöku virðisaukaskattsins. Það verður þá verkefni næsta árs og ára að ræða hvernig hátta skuli framkvæmdum eða framlögum til vegamála í ljósi þess að virðisaukaskattskerfið er komið til framkvæmda.
    En sá efnisliður frv. sem ég vil ræða nokkrum orðum, virðulegur forseti, í lokin er fjárveiting til eins verkefnis sem fært er undir landbrn. Það er svonefnd héraðsskógaáætlun sem er samkvæmt brtt. frá meiri hl. fjvn. færð undir landbrn. beint sem eitt af ýmsum verkefnum á þeim bæ en ekki lengur beint undir Skógrækt ríkisins, enda er þar um sjálfstætt og óháð verkefni að ræða. Því miður hefur hv. fjvn. ekki treyst sér til að hækka þennan lið frá því sem var í frv. við framlagningu þess, en þar eru ætlaðar 15 millj. kr. til þessa verkefnis. Fyrir liggur nokkuð ítarleg kostnaðaráætlun um það að verkefnið komið á fullan skrið kosti á milli 60 og 70 millj. kr. á ári hverju. Og ég kemst ekki hjá því að upplýsa að það eru mér vonbrigði að hv. fjvn. skyldi ekki treysta sér til að hækka þennan lið. Það eru mér sérstök vonbrigði og því nefni ég hann einan þeirra fjölmörgu liða sem ég gæti sagt ýmislegt
sambærilegt um. Ég hef talið og hef reynt að fá á því skilning að það sé nauðsynlegt verkefnisins vegna og stöðu mála að koma því a.m.k. á hálfa ferð áfram eins og ég hef orðað það. Til þess þyrftu að bætast við einar 15 til 20 millj. kr. að svo mætti verða. En úr því að svo hefur nú farið að hv. fjvn. hefur ekki talið verkefnið komið á þann rekspöl að hún gæti réttlætt það að hækka þessa fjárveitingu án frekari rökstuðnings verður að sæta því. Ég tek það hins vegar fram að ég er ekki sammála þeirri röksemdafærslu hv. fjvn. Ég tel fullnægjandi rök hafa verið færð fyrir því að þarna þurfi meiri fjármuni á næsta ári til að undirbúa og hefja verkefni með

eðlilegum hætti. Ég vil einnig ítreka að þetta verkefni byggir á þegar gerðri samþykkt Alþingis, þál. um skógræktarátak á Fljótsdalshéraði, ítem á sérstakri ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá sl. sumri um að hefja slíkt átak. Ég mun hins vegar og vil að það komi sérstaklega fram við þessa umræðu gera það sem í mínu valdi stendur verði fjárveitingar til verkefnisins á fjárlögum ekki hærri en nú stefnir í, útvega þá viðbótarfé til þess að verkefnið megi komast á fullan skrið og a.m.k. hálfa ferð áfram strax á næsta ári og snúa mér í þeim efnum til allra þeirra aðila sem hugsanlega gætu lagt þessu verkefni lið og ég veit að fyrir því er víða áhugi að styðja við það. Ég tel þar auðvitað koma fyrst og fremst til greina að taka um það sjálfstæða ákvörðun á næsta ári, þegar verkefnið er komið lengra áleiðis, að bæta við þessa fjárveitingu beint úr ríkissjóði. Í öðru lagi gætu aðrir og utanaðkomandi aðilar hugsanlega komið til liðs við verkefnið og lagt því fé. Í þriðja lagi kæmi til greina, og verður athugað af minni hálfu, hvort auðvelda megi einhverja uppbyggingu og greiða einhvern fjárfestingarkostnað með öflun lánsfjár á næsta ári sem síðan yrði þá eftir atvikum greiddur af fjárveitingum næstu ára eða með sértekjum sem slíkar lántökur gætu hugsanlega grunnlagt. Ég set mér það sem markmið eins og ég hef þegar sagt að láta ekki staðar numið fyrr en það er tryggt að verkefnið geti haldið áfram af fullum krafti og ég tel að það sé afar mikilvægt að svo takist, þannig að ekki fjari undan því eða tiltrú manna á því að Alþingi og ríkisstjórn hafi verið og sé full alvara með samþykktum sínum um þetta mál.
    Að lokum skal það tekið fram að það er nú til athugunar í landbrn. hvort skynsamlegt og rétt sé að staðfesta þetta verkefni enn frekar með því að koma með það hér inn á hið háa Alþingi á nýju ári í formi sérstakrar þál. og mun það skýrast í upphafi ársins hvort svo verður eða ekki. --- [Fundarhlé.]