Fjáraukalög 1989
Fimmtudaginn 21. desember 1989


     Frsm. meiri hl. fjvn. (Sighvatur Björgvinsson):
    Virðulegi forseti. Fram kom við 2. umr. málsins hvaða meginviðmiðanir fjvn. eða öllu heldur meiri hl. fjvn. hafði haft við afgreiðslu þessa máls og tillöpgugerð, en það meginviðhorf var að leggja til að samþykktar yrðu allar þær aukafjárveitingar sem hæstv. ríkisstjórn eða einstakir ráðherrar hafa samþykkt með atbeina fjmrh. og hafa annaðhvort verið greiddar út eða skuldbundið um greiðslu á.
    Meiri hl. fjvn. gerði síðan tillögur um að það sem eftir stæði væri að hluta til skorið niður og ekki samþykktar greiðsluheimildir á og byggði þá á upplýsingum frá fjmrn. um hvaða greiðslur væri ekki búið að inna af hendi og ekki búið að skuldbinda.
    Fyrir atkvæðagreiðsluna við 2. umr. komu fram tilmæli frá einstökum ráðherrum um að sum atriði í tillögugerð meiri hl. fjvn. um niðurskurð yrðu skoðuð betur þar eð fyrir lægi að ákvarðanir hefðu verið teknar um skuldbindandi greiðslur úr ríkissjóði á vegum fagráðuneytanna þó svo að þær upplýsingar hafi ekki borist fjmrn. í tæka tíð þegar fjvn. kallaði eftir upplýsingum þar að lútandi frá fjmrn.
    Meiri hl. fjvn. hefur tekið þessi örfáu atriði til skoðunar og flytur nú tillögur sínar á þskj. 471 í samræmi við niðurstöður af þeirri athugun. Í ljós kom í fyrsta lagi að hvað varðar Þjóðarbókhlöðu og afgreiðslu aukafjárveitingar að fjárhæð 35 millj. kr. sem gert var ráð fyrir í frv. til fjáraukalaga, þá er það rétt að búið er að gera bindandi verksamning um þetta verk og skuldbinda
greiðslu úr ríkissjóði vegna þessa verksamnings allt að 30 millj. kr. og mun sú greiðsla falla til á þessu ári.
    Meiri hl. fjvn. leggur til, að fengnum þeim upplýsingum, að þessi fjárhæð verði samþykkt og er það í samræmi við aðrar tillögur meiri hl. fjvn. um aukafjárveitingar sem þannig stendur á að þær hafi annaðhvort þegar verið greiddar eða skuldbindandi ákvörðun verið tekin um greiðslu á þeim.
    Sama máli gegnir hvað varðar tillögu 2. Sú tillaga varðar Unglingaheimili ríkisins og er um kostnað sem lagt hefur verið í vegna ákvarðana um að hefja rekstur á meðferðarheimili fyrir unga fíkniefnaneytendur á árinu 1990. Til þess að undirbúa það mál hefur verið ráðist í nokkurn kostnað, m.a. í sambandi við úttekt á hugsanlegu húsnæði og einnig er varðar þjálfun starfsmanna. Sá kostnaður sem mun falla á ríkissjóð á árinu 1989 af þessum orsökum er 1 millj. 210 þús. kr. og leggur meiri hl. fjvn. til í samræmi við áðurgreinda afstöðu að Alþingi fallist á þá viðbótarheimild.
    Einnig kom í ljós við athugun fjvn. að þegar hafði farið fram greiðsla á vegum Skógræktar ríkisins sem fjallað er um í 3. brtt. og er sú greiðsla vegna kaupa eða eftirstöðva af kaupum Skógræktarinnar á tveimur traktorum frá árinu 1987. Sú greiðsla hefur einnig farið fram og gerir meiri hl. fjvn. tillögu um að hún verði viðurkennd.
    Þá komu einnig fram upplýsingar um að skuldbindandi loforð hafi verið gefið um greiðslu

aukafjárveitingar að fjárhæð 2 millj. kr. til Kvennaathvarfsins í Reykjavík þó sú greiðsla hafi ekki verið innt af hendi. Meiri hl. fjvn. lítur svo á að slíkt loforð um greiðslu sem tilkynnt hefur verið þriðja aðila sé í raun skuldbindandi um greiðslur úr ríkissjóði og leggur því til að fallist verði á að fullu að veita þá aukafjárveitingarheimild til greiðslu á 2 millj. kr. til Kvennaathvarfs í Reykjavík sem búið var að gefa fyrirheit og bindandi skuldbindingar um.
    Þá er í fimmta lagi tillaga sem kölluð var til baka og var tillaga frá meiri hl. fjvn. á því þingskjali sem afgreitt var við 2. umr. þessa máls og varðaði lækkun á framlögum til Landgræðslu ríkisins vegna stofnkostnaðar. Það kom einnig í ljós, þegar málið var skoðað betur, að þessi fjárhæð hafði þegar verið greidd þó svo að fjmrn. hafi ekki fengið upplýsingar um það þegar kallað var eftir upplýsingum um greiddar eða skuldbundnar aukafjárveitingar frá fjmrn. á sínum tíma. Er því ekki endurflutt sú tillaga sem flutt var um að sú greiðsluheimild yrði ekki samþykkt. Sú tillaga hefur sem sé verið tekin aftur.
    Virðulegi forseti. Þetta er niðurstaða meiri hl. fjvn. sem hér kemur fram. Hún er í fullu samræmi við aðrar afgreiðslur sem nefndin hefur lagt til og ég legg til að frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1989 verði síðan samþykkt með þessum breytingum.