Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil strax í upphafi ræðu minnar taka fram að séu óskir uppi um það í þingheimi að ljúka fundinum og að ekki verði hér haldnar fleiri ræður þá er ég fús til að fallast á það. Ég vildi gjarnan, vegna þeirra spurninga sem héðan bárust úr salnum, biðja forseta að inna þingmenn eftir því. Ef það er almenn ósk þingmanna og skilningur á því samkomulagi sem gert mun hafa verið um þingstörfin þá er ég að sjálfsögðu fús til þess að falla frá orðinu. ( Gripið fram í: Ég hélt bara að formaður Sjálfstfl. ...) Hafi þetta verið skilningur þingmanna beini ég því til forseta að hann breyti samkvæmt því. Er forseti fús til þess að svara spurningunni? ( Forseti: Forseti vill upplýsa að á þeim fundi sem haldinn var með formönnum þingflokka var samkomulag um að þeir tveir hv. þm. sem hér hafa þegar talað flyttu mál sitt hér í kvöld. Aðrir hv. þm. sem á mælendaskrá voru kusu að fresta máli sínu til næsta fundar. Það var sérstaklega óskað eftir að hæstv. utanrrh. væri viðstaddur umræðuna en það skal játað að ekkert var um það rætt hvort hann tæki til máls. ( Gripið fram í: Við viljum endilega hlýða á mál ráðherrans.) Forseti vill því beina því til hæstv. utanrrh., verði því ekki mótmælt, að hann heldur stytti mál sitt. Um það var talað á umræddum fundi að hér væri starfsfólk orðið ærið langþreytt og allir voru sammála um að reyna að sjá svo til að þessi fundur stæði ekki langt fram á nótt. Mikið er enn þá eftir af þessari umræðu eins og öllum má vera kunnugt þannig að sú er ósk forseta að hann reyni sem unnt er að stytta mál sitt.)
    Virðulegur forseti. Ég mun að sjálfsögðu verða við óskum forseta um þetta og segja hér aðeins örfá orð. Þessi umræða er þegar orðin nokkuð löng og ég tek það fram að að sjálfsögðu munu þessi mál koma aftur á dagskrá þingsins í vetur og þá mun unnt að bregðast við ýmsum athugasemdum sem hér hafa komið fram og svara spurningum sem hér hafa líka verið fram bornar.
    Ég ætla mér alls ekki þá dul á þessum fundi eða í því stutta máli sem ég hyggst flytja hér að svara í öllum greinum þeim spurningum sem hér hefur verið varpað fram, til þess gefst ekki tími. En ég tek undir það með þeim sem hér hafa talað, hv. 2. þm. Austurl. og hv. 12. þm. Reykv., að hér er vissulega um mjög stórt og mikilvægt mál að ræða sem er eðlilegt að tekið sé til ítarlegrar umræðu í þinginu. Það hefur líka verið gert og ég vildi þess vegna segja það strax að þegar ég dró hér saman á fundi 19. des. hversu lengi umræðan hefði staðið og hversu ræðutíminn hefði skipst var það ekki til að varpa rýrð á gildi þeirrar umræðu heldur eingöngu til að vekja athygli á því að því mikilvæga verkefni hefði vissulega verið sinnt að ræða málið hér í þingsölum.
    Ég vildi reyna að draga það saman sem mér finnst vaka í máli þeirra beggja, hv. 2. þm. Austurl. og hv. 12. þm. Reykv. Þau hafa sett hér fram kenningu sem í mjög einföldu máli má orða svo: Nánari samvinna Íslendinga við Evrópubandalagið á vettvangi

sameiginlegs evrópsks efnahagssvæðis með EFTA-ríkjunum og Evrópubandalagsríkjunum mun gera Ísland í framtíðinni fámennara, fátækara, menningarsnauðara en það annars væri og auk þess ofurselt yfirþjóðlegu valdi. Er þetta rétt kenning eða er hún röng? Þetta snertir í senn mjög mikilvæg matsatriði um það hvort nánara efnahagssamstarf sé til þess fallið að gera þátttakendurna auðugri, öflugri og þar með gefa þeim svigrúm til að iðka blómlegra menningarlíf en annars væri, og að auka sjálfstæði þjóðanna í raunverulegum skilningi þess orðs.
    Mín skoðun er sú að mánara samstarf við Evrópuríkin mundi einmitt gera þetta, þ.e. treysta stöðu Íslands og Íslendinga meðal þjóða, að tryggja betur en annars væri að Íslendingar héldu til jafns við nágrannaríkin um lífskjör. Og eins að það mundi styrkja íslenska menningu vegna þess að samskipti við aðrar þjóðir hafa alltaf auðgað íslenska menningu en ekki gert hana fátækari.
    Við erum hér að ræða um grundvallaratriði, ekki eingöngu um tæknimál. Við erum hér líka að ræða um hvort frelsin fjögur muni leiða til heilla fyrir þjóðina eða til hins gagnstæða. Frelsin fjögur sem hér er rætt um eru ekki tilgangur í sjálfum sér. Þau eru tæki til að tryggja aukið frelsi þjóðanna, fólksins sem í löndunum býr. Það er kenning þeirra sem hafa trú á því að ef rétt sé á haldið geti þetta Evrópusamstarf einmitt fært Íslendingum slíkan ávinning. Og reyndar að það sé nauðsyn, við höfum ekki efni á því að sitja hjá í þessari miklu þróun sem nú er að verða. Það er út frá þessu sjónarmiði sem talað er í stefnuyfirlýsingum ríkisstjórnarinnar í málinu. Það er út frá þessari skoðun sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að utanrrh. muni fyrir hönd Íslands áfram taka þátt í þeim undirbúnings- og samningaviðræðum sem nú fara í hönd milli EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins annars vegar og Evrópubandalagsríkjanna hins vegar.
    Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að ákaflega mikilvægt er að náið samráð og samstarf sé með stjórn og þingi í þessu máli, bæði á vettvangi utanríkismálanefndar, Evrópustefnunefndar þingsins og reyndar á vettvangi þingsins sjálfs. Ég er þess fullviss að svo verði. Það er ákaflega mikilvægt að stefna að sem víðtækastri samstöðu með þjóðinni um þetta mál. Og ég gerði
tilraun, sem hv. 2. þm. Austurl. vék hér að, til þess að ná samkomulagi um hvernig ljúka mætti þessari umræðu með því að draga upp hugmynd um dagskrártillögu sem rökstudd væri með þeim hætti að menn gætu á málið fallist. Það tókst ekki en ég tel þeim tíma hafa verið vel varið að freista þess að ná slíkri samstöðu. Ég vil taka það skýrt fram að ég átti viðræður við alla stjórnarandstöðuflokkana um þetta mál, Sjálfstfl., Kvennalistann og frjálslynda hægrimenn og fékk allgóðar undirtektir bæði hjá sjálfstæðismönnum og frjálslyndum hægrimönnum en þingmenn Kvennalistans lýstu hins vegar því að þeir gætu ekki tekið þátt í að standa að slíkri afgreiðslu. Hugmyndin var alls ekki að takmarka umræður um Evrópumálið, þvert á móti að reyna að skilgreina

samnefnara í því dæmi sem við erum öll sameiginlega að reyna að reikna.
    Hér hefur því verið haldið fram af hv. 2. þm. Austurl. að rangar upplýsingar hafi verið gefnar og missagnir vísvitandi fluttar í málinu til þess að villa mönnum sýn um hvað væru samningsatriði og hvað væru það ekki. Hv. 2. þm. Austurl. og hv. 12. þm. Reykv. hafa bæði vitnað hér til þess sem þau hafa kallað misræmi milli skýrslu utanrrh., minnisblaða sem utanrrn. hafði sent nefndum þingsins og orða sem fallið hafa úr þessum ræðustól. Er þá m.a. vitnað til ræðu sem ég hélt 4. des. sl. þar sem ég sagði sem svo að sum lífshagsmunamál, grundvallarhagsmunamál, yrðu ekki samningsatriði í sjálfum sér. Þetta er mjög mikilvægt sjónarmið og við höfum sett þessa skoðun fram. Hún er hluti af okkar samningsstöðu, hluti af því sem ýmsir kalla fyrirvara af hálfu Íslands. Það er alveg rétt að þetta kemur ekki fram á bls. 9 í skýrslu utanrrh. þar sem talað er um að undantekningar sem réttlættust með hliðsjón af grundvallarhagsmunum svo og tilhögun á aðlögunartíma ættu að vera samningsatriði. En ég bendi hv. 12. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Austurl. á það að í framhaldinu koma þessi orð, með leyfi hæstv. forseta, í skýrslu utanrrh.:
    ,,Þau atriði sem EFTA-ríkin bentu á í þessu sambandi eru rakin í eftirfarandi köflum um einstaka efnisþætti.`` Og þar koma einmitt þessi sjónarmið um aðgang að náttúruauðlindum og óskoruð yfirráð Íslendinga yfir þeim, sem er kjarninn bæði í okkar fyrirvörum hvað varðar lífshagsmuni, ef kalla mætti þá því nafni, og hvað varðar fjármagnsflutninga sem hér var líka vikið að. Ég fullvissa hv. 2. þm. Austurl. um að lífshagsmunamálin verða í sjálfum sér ekki samningsatriði. En til þess að skilgreina þau þarf að sjálfsögðu óformlegar viðræður, undirbúningsviðræður og á undan þeim könnunarviðræður, því að sjálfsögðu hljóta þessi undanþágumál, þessi sérstöku mál að skilgreinast í samningsundirstöðunni, samningsgrundvellinum. Og ég hygg að í þessu muni e.t.v. liggja skýringin á því sem menn hafa viljað kalla misræmi í textunum en textaskýringarfræði og samanburður á textum úr ræðum og ritsmíðum manna um þetta efni er vandasamur ekki síst þegar oft er verið að þýða á milli mála. Ég held að ekki fari á milli mála að hér hefur verið alveg skýrt á þessu máli haldið af hálfu EFTA-ríkjanna og af hálfu Íslands að um ákveðin grundvallarmál, grundvallarhagsmunamál verður ekki samið í sjálfum sér þótt skilgreining þeirra hljóti að tengjast samningsgrundvelli og hvernig hann er upp lagður. Það segir sig sjálft, það skilur hver maður. Það skilur hver maður sem nokkurn tímann hefur tekið þátt í samningum að þú verður að leggja drög til þess að skilgreina hvað það er sem þú ætlar ekki að semja um, út af fyrir sig er það samningur. Þá erum við komnir í hreinan orðhengilshátt.
    Ég vildi líka vekja athygli á því að hv. 2. þm. Austurl. heldur því fram með sérkennilegum hætti að það sé sérstakt keppikefli, ja, Alþfl. og þá ríkisstjórnarinnar að ganga undir hið yfirþjóðlega vald, að takmarka sjálfstæði Íslands og að sjálfsforræðinu

hafi verið kastað fyrir róða. Má ég vekja athygli hv. 2. þm. Austurl. og reyndar hv. 12. þm. Reykv. líka á því sem segir í yfirlýsingu ráðherrafundarins, hins sameiginlega með EFTA og Evrópubandalagsríkjum, sem út var gefin núna 19. þessa mánaðar. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, í 6. tölul.:
    ,,Þeir telja að í samskiptarammanum ætti m.a. að tryggja aðilum hans fullt sjálfsforræði við töku ákvarðana.`` Tilvitnun lýkur, en ég endurtek: Fullt sjálfsforræði við töku ákvarðana. Ég leyfði mér að segja í ræðu í þinginu þennan sama dag að ég teldi þetta mjög mikilvægt atriði þar sem þau taka undir sjónarmið EFTA-ríkjanna allra og Íslendinga sérstaklega hvað þetta atriði varðar. En auðvitað er það rétt og sú er mín skoðun að sjálfstæði þjóða muni í framtíðinni miklu fremur ráðast af menningarlegum og félagslegum gildum en efnahagslegum gildum. Að því leyti er ég á ýmsa lund sammála hv. 12. þm. Reykv. Hið fjórþætta frelsi er tæki til þess að gera okkur kleift að öðlast þetta sjálfstæði, sem er það sem eftirsóknarvert er, að Ísland haldi sínum hlut meðal þjóða. Það er líka eitt af markmiðum okkar með þátttöku í þessum viðræðum að fá viðurkenningu á sérstöðu Íslendinga meðal Evrópuríkja.
    Virðulegur forseti. Mjög margt af því sem fram hefur komið í ræðum hv. þm. hér í kvöld er þess eðlis að alllangan tíma tæki að svara því öllu svo vel væri. Ég geri því ráð fyrir að tækifæri muni fást síðar að fjalla um þau efni öll. Og ég held það liggi í hlutarins eðli að þær undirbúningsviðræður sem nú
fara í hönd muni leiða fram mörg af þeim málum sem hér hafa komið upp og á hefur verið tæpt. Tilgangur slíkra viðræðna er einmitt að skilgreina þau atriði sem þarna skipta máli eins og kom fram í ræðu minni 24. nóv. sl. sem hv. 12. þm. Reykv. var svo vinsamlegur að vitna til. Það er mjög mikilvægt að skilgreina hvar hinir íslensku hagsmunir liggja. Það verður ekki gert öðruvísi en með viðræðum. Um tvíhliða viðræður og gildi þeirra fyrir samskipti okkar við Evrópubandalagið og Evrópubandalagsríkin ætla ég ekki að segja margt umfram það sem þegar hefur komið fram. Ég vil ítreka það og taka sérlega skýrt fram nú að ríkisstjórnin mun leggja aukna áherslu á tvíhliða viðræður við Evrópubandalagsríkin og Evrópubandalagið sjálft, framkvæmdanefnd þess sem fer með mjög mikilvæg mál fyrir hönd aðildarríkjanna. Slíkum viðræðum verður haldið áfram þótt á þessu stigi máls sé ekki ráðlegt að skilgreina slíkar viðræður eða óskir um þær sem samningaviðræður. Til þess þurfum við að leiða betur fram um hvað þar þyrfti að semja, hver væru hin eiginlegu viðfangsefni slíkra samninga. Það mun skýrast sem óðast nú á næstu vikum og mánuðum og þá er ég þess fullviss að mjög margt af því sem hér er rætt sem ágreiningsefni hverfur eða gufar upp, því að sjálfsögðu er markmiðið með þátttöku okkar í þessum viðræðum að gæta hagsmuna Íslands í lengd og bráð.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að hafa þessi orð mín miklu fleiri. Segi aðeins að lokum að tækifæri mun gefast til þess síðar á hinu háa Alþingi að fjalla

um þetta mikilvæga mál sem áreiðanlega er eitt mikilvægasta mál varðandi samskipti Íslands og umheimsins sem við höfum fengist við á lýðveldistímanum og þess vegna mikil ástæða til að ræða það á Alþingi Íslendinga.