Veiðieftirlitsgjald
Föstudaginn 22. desember 1989


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Hér er um sérstakt mál að ræða. Það má kannski kalla það einfalt en það er mjög sérstakt. Það er í þeirri stöðu þegar það kemur hér fyrir hv. deild, að það er lítið um annað að gera en að ganga frá því og afgreiða það. Það er búið að stilla hv. þm. þannig upp að það er enginn tími til skoðunar á þessu máli. Ég tel það nefnilega ekki svo einfalt að það hefði ekki verið þörf á því að skoða það vel.
    Hér fyrr í vetur var lagt mál fyrir hv. deild og af ráðherra --- ja, af framkvæmdarvaldinu, ekki ráðherra, vil ég taka fram --- ráðuneyti. Mikið var lagt upp úr því að það fengi hér fljóta ferð gegnum deildina. Þetta var mál sem varðar dómsmál í landinu og það var skírskotað til þess að það þyrfti að koma því fram vegna sérstakra málaferla sem voru og eru í gangi. Þetta gekk það langt að farið var fram á það við viðkomandi nefnd að málið yrði afgreitt á svipaðan máta og hér er verið að óska eftir nú, þ.e. að málið kæmi aðeins til umræðu í hv. deild og síðan mundum við skjótast hér í hliðarherbergi og líta yfir það og afgreiða það þannig frá nefndinni. Sem betur fer var það ekki gert á þann veg heldur skoðaði hv. allshn. málið á milli funda hér í deildinni og fékk til viðræðu frammámenn í dómskerfinu. Þeir bentu allir á að á þessu máli væru miklir gallar en voru ekki með beinar tillögur um breytingar sem eðlilegt var af þeirra hálfu. Þrýstingurinn frá ráðuneytinu var svo mikill að það var talið nauðsynlegt að samþykkja þetta mál til þess að þetta nefnda dómsmál fengi framgang á réttan máta, eða hefði möguleika til að ná fram.
    Staðreyndin er sú með þetta dómsmál að það hefur ekki gengið neitt fram í tengslum við samþykkt nýrra laga. Hv. Alþingi var raunverulega fyrirskipað að afgreiða hér lög til þess að ákveðnir hlutir í dómskerfinu gætu gengið fyrir sig, því var fyrirskipað það af dómsmrn., en málin eru nú þannig að þar hefur ekkert hreyfst. Málið er jafnvel í verri stöðu en það var áður.
    Á svipaðan máta er hæstv. sjútvrh. og sjútvrn. núna að knýja í gegn mál án þess að það sé neitt skoðað af sjútvn. Aðilar í kringum málið, allir aðilar tengdir sjávarútvegi, hafa lagst gegn því. Og á þessum síðustu stundum þingsins skal knýja hv. Alþingi til að samþykkja málið á þeirri forsendu að það sé búið að semja frið milli stjórnar og stjórnarandstöðu um afgreiðslu málsins og um afgreiðslu allra mála hér á þinginu.
    Ég taldi ástæðu til að tengja þessi tvö mál saman hér við 1. umr. þessa frv., benda hv. alþm. á hvað er verið að gera. Hér er verið að koma í gegn máli óskoðuðu og biðja þingmenn að rétta upp hendurnar og gjöra svo vel fyrir framkvæmdarvaldið að samþykkja það. Þetta mál er brot á öllum venjulegum reglum, venjulegum reglum um skattheimtu. Það er bein skattheimta fagráðuneytis og fagráðuneyti á síðan að nota skattpeningana til sinna þarfa, til að velta utan á sína valdakúlu, stækka og auka sitt miðstjórnarvald og sína stjórnsemi í þjóðfélaginu. Það er á svo

margan veg sem framkvæmdarvaldið er að sýna hv. Alþingi þann hlut að það er ráðuneytisliðið sem leitar eftir því að ráða og ræður. Hér er hv. Alþingi --- og hv. Nd. þegar búin að afhenda einu ráðuneyti slíkt vald sem á ekki að vera í höndum fagráðuneytis. Innheimta skatta og álagning skatta á að vera í höndum fjmrh. og fjmrn. en ekki í höndum fagráðuneyta. Afleiðing þess ef ætti að fara að byggja upp þannig kerfi að hvert ráðuneyti hefði sína sérskatta er ófyrirsjáanleg. Landbrn., iðnrn., menntmrn. og hver önnur ráðuneyti legðu á sína eigin skatta og hefðu heimild til þess næstum því með því að gefa út reglugerð. Þetta er fráleit lagasmíð. Að samþykkja hana við þær aðstæður sem hér eru í dag tel ég að þingið ætti ekki að taka í mál að gera.
    Ég ætla ekki að fjalla um þetta frv. efnislega hér við 1. umr. en mun gera það lítillega við síðari umræðu. Ég mun ekki gera tilraun til þess að brjóta það samkomulag sem hér hefur verið gert í sambandi við starfsemi þingsins þó ég hefði það á orði þegar ég sá að þetta frv. var komið á dagskrá deildarinnar við hv. 3. þm. Vesturl., formann Alþfl., að ég mundi tala hér í fimm tíma um þetta mál. En ég ætla að láta það eiga sig. Ég sagði það hér niðri í gangi við hv. þm. (Gripið fram í.) Ja, þá hefur hv. þm. heyrt svolítið illa. En það hefði raunverulega verið það rétta núna, við hv. þm. hefðum átt að tala um þetta mál hér í nokkra klukkutíma til að forða því að slíkir hlutir sem þessir væru samþykktir á hv. Alþingi.