Veiðieftirlitsgjald
Föstudaginn 22. desember 1989


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Hv. 4. þm. Vesturl. kom með sinn gamla frasa þegar skattafrv. eru hér að það sé sjálfsagt að hækka skattana og hefur ekki skilning á því að þessi ríkisstjórn hefur eytt úr hófi fram og hefur enga aðgæslu í meðferð ríkisfjármuna. Á sama tíma og tekjur dragast saman í atvinnurekstri og hjá heimilum heldur þessi hæstv. ríkisstjórn áfram að hækka skattana. Ég hlýt líka að lýsa því yfir að mér þykir undarlegt að fá þetta frv. hér á síðasta degi fyrir jól og ég skil satt að segja ekki hvað það á að þýða. Mér er ekki kunnugt um að það hafi verið einhver launung yfir því hver þurfi að vera stefnan í sjávarútvegsmálum og alveg fullkomlega nægur tími til að leggja þetta frv. miklu fyrr fram eða kynna það með öðrum hætti. Eins og málið liggur nú fyrir, þegar á að efla löggæslu sjútvrn. með þessum hætti, hlýt ég að snúast gegn þessu frv. og get ekki á það fallist. Ég hlýt um leið að átelja hæstv. sjútvrh. fyrir það að þingnefndinni skuli ekki gefast tími til þess að athuga mál af þessu tagi. Það á bara að renna þessu í gegnum kokið á manni eins og öðru hér, öllum þessum sköttum, öllum þessum málum og öllu þessu svínaríi. Stjórnarandstaðan á ekki að fá að setja sig inn í eitt eða neitt. Og svo mikil er ósvífnin að í gær þegar við vorum á fundi í Sþ. fékkst hæstv. fjmrh. ekki til að svara efnislega fyrirspurn sem fyrir hann var lögð. Hæstv. fjmrh. hringdi á tíunda tímanum í gær til þess að biðja um það munnlega að endurgreitt yrði lántökugjald af lánum til skipasmíðaverkefna sem hæstv. viðskrh. hafði lýst yfir að yrði aldrei lagt á. Hæstv. fjmrh. talaði um að þar væri um 2--3 millj. að ræða sem líka er rangt. Ég skal ekki segja hvorum megin við 10 millj. sú upphæð er, kannski 11, kannski 12, ekki minna en 10. Það var líka rangt. Og skiptir í rauninni engu máli, finnst hæstv. ráðherrum, hvað sagt er hér í þinginu og skiptir heldur ekki máli hvenær við fáum að sjá frv. sem hér eru til meðhöndlunar um hin flóknustu mál. Nú eigum við að samþykkja þetta í dag, annað á morgun og enginn tími til að athuga eitt né neitt.