Veiðieftirlitsgjald
Föstudaginn 22. desember 1989


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Aðeins út frá orðum hv. 3. þm. Vesturl. Ég er í meginatriðum alveg sammála honum og ég held að við deilum ekki um að það þurfi eftirlit til að sjá um framkvæmd fiskveiðilaga og það þurfi peninga til þess að halda uppi eftirliti. En það er þó nokkuð mikill munur hvort það eftirlit er gert á þann veg sem hér er lagt til eða hvort það er venjulegt, opinbert eftirlit sem þörf er á í mörgum tilfellum, hvort það er viðkomandi fagráðuneyti sem býr sér til stofnanir án eftirlits og samþykkis Alþingis og án þess að hlutirnir eigi sér stað á eðlilegan máta með fjárveitingu í gegnum fjmrn. Það er náttúrlega tvennt ólíkt hvort verið er að gera þá hluti eða hvort verið er að gera það sem verið er að leggja til hér. Það er allt annað ef Landhelgisgæslan íslenska á að sinna ákveðnum þáttum í þessum málum, allt annað en að búin sé til sérstök lögregla eins og hér var orðað --- ég hef nú ekki orðað það þannig --- í sjútvrn. Það eru tveir ólíkir hlutir. Og það er það sem ég er að benda á. Ég held að hér sé verið að fara inn á vettvang sem stenst varla íslensk stjórnskipunarlög.
    Eins og ég sagði ætla ég ekki að fjalla um innihald frv. við þessa umræðu en við 2. umr. þessa máls.