Virðisaukaskattur
Föstudaginn 22. desember 1989


     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Frv. til laga um virðisaukaskatt er komið á ný til meðferðar hér eftir umfjöllun í neðri deild þar sem á því voru gerðar nokkrar breytingar og skal ég í örstuttu máli gera grein fyrir þeim.
    Í fyrsta lagi er lagt til að flugnám, eins og annað starfsréttindanám, verði undanþegið virðisaukaskatti á sama hátt og ökunám eins og segir í nál. fjh.- og viðskn. Nd. Þá verði einnig gerð undanþága að því er varðar dansnám og greiðslu virðisaukaskatts.
    Við 6. gr. er breyting. Þar sem í frv. er almennt ákvæði er undanþiggur tímarit virðisaukaskatti er ekki talin þörf á sérstökum lið um skattmeðferð erlendra tímarita.
    Á 13. gr. eru gerðar tillögur um tvær breytingar. Þar er lagt til að endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu manna á byggingarstað fari fram eigi sjáldnar en á tveggja mánaða fresti. Áður var gert ráð fyrir að þetta gerðist á þriggja mánaða fresti. Þá er lagt til að sú regla, er heimilar endurgreiðslur til sveitarfélaga, verði einnig látin gilda um ríkisfyrirtæki og ríkisstofnanir þannig að unnt sé að tryggja samkeppnisstöðu þjónustugreina.
    Það kemur fram í þessu nál. að í Nd. var einnig fjallað ítarlega um gjaldfrest í tolli og segir í áliti meiri hl. nefndarinnar, alveg nákvæmlega eins og sagði á fundi fjh.- og viðskn. þessarar deildar, að meiri hl. nefndarinnar væri ljós nauðsyn þess að sporna við hækkun verðlags og vaxta. Fram kemur að ákveðið hefur verið að gjaldfrestur á virðisaukaskatti verði veittur við innflutning á hráefni til innlendrar iðnaðarframleiðslu og raunar einnig að því er varðar innflutning á olíu. Meiri hl. nefndarinnar telur mikilvægt að fjmrn. kanni kosti þess að veita víðtækari gjaldfrest á innflutningi í því skyni að koma í veg fyrir verðlagshækkanir.
    Ég leyfi mér, herra forseti, að vísa til þeirra yfirlýsinga sem hæstv. fjmrh. gaf í þessari hv. deild þegar málið var hér til umræðu um að hann hefði átt fundi með ýmsum aðilum vegna þessa máls og því væri fyllsti gaumur gefinn í ráðuneytinu. Ég tel mig ekki hafa neina ástæðu til að ætla annað en að á því máli finnist viðunandi lausn.