Bifreiðagjald
Föstudaginn 22. desember 1989


     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Þetta frv. fylgir venjunni. Það eru nýjar álögur sem hér er verið að undirbúa. Sú hugsun liggur á bak við þetta frv. að fresta gjalddaga bifreiðaskatts um tvo mánuði til þess að hægt verði að koma í gegnum þingið frv. til hækkunar á bifreiðagjaldi. Einn skatturinn í viðbót, einn pinkill í viðbót. Sá sem ber þetta er þjóðin. Líka þeir þarna fyrir austan fjall. En ég veit að hæstv. forseti styður þetta eins og annað, skiptir ekki máli hvort við erum að skerða sóknargjöld, göngum nærri kirkjugörðum, hvort það er heilög kirkja eða olíufélagið, allir verða að bera sína pinkla og að síðustu þeir sem eiga bílana og fara með farartækjunum, sem er fólkið í landinu.
    Það verður fróðlegt að sjá atkvæðagreiðsluna á eftir. Ætli það fylgi ekki líka venjunni. Ætli sömu mennirnir greiði ekki atkvæði þessum undirbúningi að hækkun skatta og hafa verið að leggja hinar byrðarnar á þjóðina? Svo kemur formaður þingflokks Alþfl. og spyr: Hvar á að leggja á skatta annars staðar ef við leggjum ekki á þennan samkvæmt lögmálinu? Ekki má lækka skatta og ekki má draga úr útgjöldum ríkissjóðs. Ég greiði atkvæði gegn þessu frv.