Veiðieftirlitsgjald
Föstudaginn 22. desember 1989


     Skúli Alexandersson:
    Virðulegur forseti. Ég gat þess aðeins í fyrstu ræðu minni að þeir sem hefðu verið kallaðir til viðræðna hjá neðrideildarnefndinni hefðu allir lagst gegn samþykkt þessa frv. Og ég ætla að upplýsa hér hverjir það voru. Það voru í fyrsta lagi Arthur Bogason og Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda, Helgi Laxdal frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Kristján Ragnarsson frá Landssambandi ísl. útvegsmanna og Óskar Vigfússon og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands. Allir þessir forustumenn hagsmunaaðila lögðust gegn samþykkt þessa frv. Það skal þó undirstrikað að vitaskuld var ekki búið að breyta því eins og því var breytt í neðri deild en eins og frv. var þá lögðust þeir allir gegn þessu.