Veiðieftirlitsgjald
Föstudaginn 22. desember 1989


     Frsm. meiri hl. sjútvn. (Stefán Guðmundsson):
    Hæstv. forseti. Ég vil aðeins vegna orða hv. 8. þm. Reykv. Eyjólfs Konráðs Jónssonar taka það fram að ég er ekki tilbúinn til að beita mér fyrir því að frv. verði dregið til baka. Ég er honum hins vegar sammála um það og skal vera manna fúsastur til þess að beita mér fyrir því að hér fari fram umræða um Landhelgisgæsluna. Og ég tek undir hvert orð sem hann sagði um Landhelgisgæsluna. Það vill nú oft verða svo með sjávarútveginn að það hefur mjög hallað á hann og mönnum hefur fundist sjálfsagt að hann bjargaði sér sjálfur og þetta frv. ber þess auðvitað vitni. En ég vil að það komi einnig fram vegna þess sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sagði að þetta mál kemur vitaskuld upp að nýju þegar við fjöllum hér í vetur um nýtt frv. um stjórn fiskveiða og þá getur þessi umræða sjálfsagt farið ítarlegar og betur fram en nú er í miklu tímahraki. ( EKJ: Ég er sammála því. Þess vegna vildi ég fresta málinu.)