Lánsfjárlög 1990
Föstudaginn 22. desember 1989


     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Það er nú ekki ónýtt fyrir ríkisstjórnina að eiga á vísan að róa til þess að greiða fyrir málum og hraða afgreiðslu mála þar sem þeir eiga að liði hv. 5. þm. Vestf. Það er alveg einstakt happ fyrir þessa hamingjusnauðu ríkisstjórn að hafa fengið þetta hv. handbendi til þess að koma hér upp í ræðustólinn.
    Það er þó eitt satt sem þessi hv. þm. sagði hér áðan í orðum sínum og það er það að hann er illa sofinn og á erfitt með að fylgjast með og taka eftir því sem sagt er. Það kom mér nú ekkert á óvart, jafnvel þó að hann væri betur sofinn. Ég tók það fram í minni ræðu að það væru allir flokkar sekir um þessi svokölluðu ,,þrátt fyrir``-ákvæði. Og ég tók það fram að þótt það mætti kannski réttlæta í eitt eða tvö ár að gera það, þá réttlæti það ekki að halda því áfram árum saman. Þetta fór hins vegar fram hjá þeim meðvitundarlausa sem eðlilegt er. Og svo langt er hann nú leiddur --- og hugsið þið ykkur, nú ættuð þið að skilja vinnubrögð fjvn., þegar höfuðið á nefndinni er svona illa farið, þó að vinnan sé nú ekki upp á marga fiska. Hann sagðist hafa þurft að fara að gæta að hver hefði verið fjmrh. fyrir þremur árum. Hann mundi það ekki, og hann bara fann þetta út af einstakri skarpskyggni að Þorsteinn Pálsson hefði verið fjmrh. Hugsið þið ykkur. Haldið þið að það sé nú við góðu að búast við afgreiðslu fjárlaga hérna með þetta blessaða höfuð, þó það hangi við bolinn.
    Svo kom hann með kálfasögur hér í lokin sem Pálmi Jónsson fékk honum upp í hendurnar því að enga kálfasögu á hann sjálfur og þar segir hann að bóndi einn sem hefur ekki haft mikla mannúð til að bera hefði sargað lífið úr kálfi sínum með bitlausum hníf. Ja, það er munur á ævi kálfanna, þeim sem sargað er lífið úr með bitlausum hníf og þeim kálfum sem núna ganga hér sjálfala um á Alþingi Íslendinga og troða í sig fóðrinu frá morgni til kvölds.