Fjárlög 1990
Föstudaginn 22. desember 1989


     Sighvatur Björgvinsson:
    Virðulegi forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um tekjuáætlun fjárlagafrv. Sú undarlega afstaða hefur nú komið fram í atkvæðagreiðslunni hjá fulltrúum Kvennalistans hér á Alþingi að þessir hv. fulltrúar leggja fram tillögur um nærri 300 millj. kr. aukningu á útgjöldum ríkisins. Á sama tíma leggja þessir sömu þingmenn til að öll tekjuöflun ríkisins verði felld. Þeir leggja sem sé til að hækka útgjöld ríkisins frá því sem fjvn. leggur til og jafnframt leggja þessir sömu þingmenn til, og með atkvæði sínu núna, að felldar verði allar tekjuöflunartillögurnar sem þarf til að standa undir þeim útgjöldum. Þetta er undarleg afstaða og hefur aldrei áður komið fram á Alþingi svo að ég viti til. Ég segi já.