Fjárlög 1990
Föstudaginn 22. desember 1989


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég vil minna á fyrirheit ríkisstjórnarinnar um sérstakt átak í atvinnumálum kvenna á landsbyggðinni. Ekkert bólar enn á efndum þess fyrirheits og virðist ríkisstjórnin fá ráð kunna til að ráða fram úr vanda atvinnulífsins. Konur eru í miklum meiri hluta atvinnulausra og því ljóst að grípa verður til sérstakra aðgerða þeim til handa.
    Kvennalistinn hefur nú komið til móts við ráðleysi ríkisstjórnarinnar og flutt frv. um að stofnuð verði sérstök deild við Byggðastofnun sem einungis hafi það hlutverk að sinna atvinnuuppbyggingu kvenna. Það má ljóst vera að framtíð byggðarinnar í landinu hvílir á herðum kvenna og þar er hlutfallslega stærsti hópur atvinnulausra kvenna. Ef svo fer sem horfir munu konur neyðast til að flytja í þéttbýlið og þá þarf ekki að sökum að spyrja, ekki verða karlmennirnir einir eftir. Ég segi því já.