Fjárlög 1990
Föstudaginn 22. desember 1989


     Jón Bragi Bjarnason:
    Virðulegi forseti. Hér er um brtt. að ræða sem gerir ráð fyrir lækkun á tölum. Þetta er hins vegar lækkun á sértekjum. Tilefni þessarar lækkunar og hækkunar á fjárlögum um 28,5 millj. er það að frv. sem varð að lögum í dag um veiðieftirlitsgjald var breytt í meðförum Alþingis. Þetta var stjfrv. þar sem gert er ráð fyrir að sérstakt gjald, veiðieftirlitsgjald, verði lagt á fyrir veiðileyfi. Frv. breyttist hins vegar þannig að gjaldið lækkar eða framlag atvinnugreinarinnar lækkar um helming vegna meðferðar Alþingis og því var ég andvígur. Hins vegar fagna ég því að þetta er komið á það stig sem nú er og tel þetta fyrsta skref í stjórn fiskveiða með sölu eða uppboði veiðileyfa og segi því já.