Fjárlög 1990
Föstudaginn 22. desember 1989

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Við stöndum frammi fyrir þeirri dapurlegu staðreynd að ofbeldi fer vaxandi í þjóðfélaginu. Í byrjun þessa mánaðar höfðu jafnmargar konur leitað til Kvennaathvarfsins á þessu ári eins og þangað leituðu allt árið í fyrra. Konurnar sem vinna í Kvennaathvarfinu hafa sýnt fram á að þær geta gert raunhæfar áætlanir um rekstur þess, þ.e. áætlanir sem standast. Þær fara fram á 70% af framlagi til rekstrarkostnaðar frá ríkinu. Ég vil aðeins vekja athygli á að þær hafa nú gert fjárhagsáætlun þar sem aðeins er reiknað með 2% hækkun á milli ára og held ég að það hljóti að teljast einsdæmi. Þó hér sé um örlitla útgjaldaaukningu að ræða fyrir ríkissjóð nú getum við rétt ímyndað okkur hvaða útgjöld gætu orðið í framtíðinni ef við getum ekki hjálpað því fólki, þeim konum og þeim börnum sem fyrir ofbeldi verða nú, en það er einmitt eitt af mikilvægustu verkefnunum sem Kvennaathvarfið sinnir um þessar mundir, þ.e. fræðslu- og forvarnarstarf. Þær finna mjög fyrir þörfinni á því að gera meira fyrir barnahópana í Kvennaathvarfinu. Ég segi því já.