Fjárlög 1990
Föstudaginn 22. desember 1989


     Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Þeir sem hafa talað fyrir þessum lið á fjárlögum, lið 6.1, kaupum á dagblöðum fyrir stofnanir ríkisins, hafa nú kastað grímunni vegna þess að hér stendur umbúðalaust að það eigi að kaupa 500 blöð til viðbótar umfram það sem veitt er til blaðanna. Hér er umbúðalaust verið að tala um þetta sem styrk til blaðanna og var kominn tími til að menn köstuðu grímunni í þessu efni. Hér er verið að tala um ... ( Gripið fram í: Þetta er sama orðalag.) Þetta er sama orðalag þar sem verið er að vitna til beina styrksins, virðulegi menntmrh., sem ekki hefur kynnt sér þá tillögu sem hér er til meðferðar. Hér er verið að tala um tugi milljóna í vasa flokkssneplanna í landinu, sem fólkið vill ekki sjálft kaupa, í skjóli sjúklinganna og skólanna og þjónustustofnana ríkisins. Ríkisstjórn sem hér er að skera niður útgjöld til almennings á ýmsum sviðum opinberrar þjónustu upp á hundruð milljóna og milljarða króna leyfir sér að koma með þetta framlag hér, þessa tillögu upp á tugi milljóna styrk til flokkssneplanna í landinu. Þetta sýnir bara að tillögur ríkisstjórnarinnar um sparnað og aðhald í ríkisrekstrinum eru markleysa og ekkert annað en markleysa. Ég segi nei.