Fréttatilkynning utanríkisráðuneytisins um
Föstudaginn 22. desember 1989


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Ég tek undir það, þetta er býsna kyndug þingskapaumræða. En hún hefur þegar hafist og nauðsynlegt er að vekja á því athygli að hér á hinu háa Alþingi gerist það nú orðið á hverjum degi þegar hæstv. ríkisstjórn lýsir afstöðu Íslendinga til mikilvægra mála sem gerast á erlendum vettvangi að upp kemur alvarlegur ágreiningur milli stjórnarflokkanna.
    Hæstv. utanrrh. varð að setja ofan í við hæstv. forsrh. þegar fjallað var hér um blaðaviðtal við sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Og nú hefur það komið upp enn einu sinni að ríkisstjórnin er þverklofin í afstöðu sinni í þessu efni. Sú yfirlýsing sem hæstv. utanrrh. hefur gefið í þessu efni, og ég er í öllum meginatriðum sammála, gengur gegn þeim yfirlýsingum sem hæstv. forsrh. hefur gefið af sama tilefni. Það hefur því enn einu sinni gerst að hæstv. utanrrh. hefur þurft að setja ofan í við hæstv. forsrh. vegna afstöðu til mikilvægra mála sem gerst hafa á erlendum vettvangi. Ég hygg að ekki einasta sé nauðsynlegt að hæstv. ríkisstjórn ræði um þessi efni sín á milli, heldur væri ástæða til þess, frú forseti, að efna til umræðu hér á hinu háa Alþingi um afstöðu Íslendinga í þessum efnum svo fljótt sem verða mál.