Flugmálaáætlun 1990--1993
Mánudaginn 22. janúar 1990


     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Mér þykir rétt að vekja á því enn sterkari athygli en fram kom í máli hæstv. ráðherra hversu mikil tímamót hafa orðið í fjárveitingum til flugmála, bæði hjá Flugmálastjórn og eins til framkvæmda í flugmálum við setningu laga nr. 31/1987, um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum. Þetta var mikið þarfaverk sem þá var unnið á hv. Alþingi undir forustu þáv. samgrh. Matthíasar Bjarnasonar. Nauðsynlegt er að muna eftir því að til þeirra verka megi rekja það að nú er hægt að skila þessum málum verulega áfram miðað við þá áætlun sem hér liggur fyrir.
    Ég ætlaði einnig að minnast á það að hæstv. ráðherra vék lauslega að því að á síðasta ári hafi orðið alvarlegur halli hjá Flugmálastjórn. Hvort tveggja hefði gerst að laun og önnur rekstrargjöld hefðu farið verulega fram úr því sem fjárlög gerðu ráð fyrir svo og snjómokstur, en tekjur hefðu ekki skilað sér eins og fjárlög gerðu ráð fyrir. Þetta er alvarlegt og þó því hafi, eins og hæstv. ráðherra sagði, að nokkru verið mætt með afgreiðslu fjáraukalaga nú skömmu fyrir jól, þá gaf hæstv. ráðherra í skyn að ekki væru öll kurl til grafar komin varðandi sl. ár. Er þetta einn þátturinn í því sem væntanlega á eftir að koma til meðferðar hér á hinu háa Alþingi varðandi meiri halla í fjármálum ríkisins en við gerðum þó ráð fyrir. Hér er fyrsta vísbendingin í þá átt frá hæstv. ríkisstjórn.
    Ég minni enn fremur á að fjárlög fyrir þetta ár voru afgreidd með þeim hætti varðandi þessa stofnun, Flugmálastjórn, og menn horfðu á það með opnum augum, að mér virtist, meiri hl. hv. fjvn. og hæstv. ríkisstjórn, að þar vantaði inn í launalið Flugmálastjórnar um 47--48 millj. kr. Og mér er spurn hvort hæstv. samgrh. hyggist ná þessum sparnaði í launum hjá stofnuninni og þá með hvaða hætti. Það fengust engin viðhlítandi svör við spurningum um þetta atriði við
afgreiðslu fjárlaga fyrir árið í ár. Nú vænti ég að þó að hæstv. ráðherra hafi skipað nefnd hljóti þar að verða einhver stefna sem sú nefnd á að starfa eftir. Spurningin er hvort það sé meiningin að skera eigi niður starfsemi Flugmálastjórnar með þeim hætti að ná megi sparnaði upp á 47--48 millj. kr. í launaútgjöldum eða á hvern hátt þetta gat eigi að fylla.
    Það hafði áður tíðkast að Flugmálastjórn stóð býsna vel við þær áætlanir sem gerðar voru við fjárlagaafgreiðslu hverju sinni. Það er mjög illt að taka upp þau vinnubrögð við afgreiðslu fjárlaga að setja stofnunum ríkisins sem, að því er best verður séð, hafa staðið vel að sínum málum, svo þrönga kosti í afgreiðslu fjárlaga að vitað sé að ekki er hægt að standa við þá. Svo sýnist mér vera um þessa stofnun, þ.e. Flugmálastjórn.
    Ég tel ekki ástæðu til að fjalla hér um skiptingu framkvæmdafjár. Sú tillaga sem hér er á ferðinni gengur til fjvn. og verður þar tekin til meðferðar. Væri miklu eðlilegra að fjalla um skiptingu

framkvæmdafjár og einstök mál af því tagi eftir að vinna hefur farið fram í þeirri nefnd. Ég vildi því aðeins í fyrsta lagi vekja á því athygli hversu mikil þáttaskil eru með setningu laganna 1987 og í annan stað lýsa því að ég tel það mikla afturför, og í rauninni stórkostlega aðfinnsluvert, að halda á málum við afgreiðslu fjárlaga eins og gert hefur verið bæði fyrir árið 1989 og fyrir árið 1990 með þeim hætti að sýnilegt er að stofnuninni er ekki nokkur leið að halda sig innan þess ramma sem þar er settur. Og ekki er vitað til þess að auðvelt sé að fá til að mynda flugumferðarstjóra til að vinna í sjálfboðavinnu við sín störf eða aðra starfsmenn á þessari stofnun.