Flugmálaáætlun 1990--1993
Mánudaginn 22. janúar 1990


     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í umræður um framkvæmdir á Ísafjarðarflugvelli sem vafalaust eru brýnar og ábyggilega þarfar eins og víða hvar annars staðar í flugmálum okkar Íslendinga. En hv. 3. þm. Vestf. Karvel Pálmason nefndi þá draumsýn sem nú hefði verið rædd á fundum ríkisstjórnarinnar um bættar samgöngur á Vestfjörðum með jarðgangagerð og að nauðsynlegt væri að tengja þá draumsýn við framkvæmdir í raun í flugmálum Vestfirðinga. Allt má þetta nú vera rétt.
    Ég hafði í sjálfu sér tekið eftir því að hæstv. samgrh. hafði látið frá sér fara í fjölmiðlum upplýsingar þess efnis að fyrir dyrum stæði að flýta jarðgangagerð á Vestfjörðum. Út af fyrir sig er það vel, en væntanlega er það réttilega orðað hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni að það sé draumsýn vegna þess að þessi hæstv. samgrh. hefur nú beitt sér fyrir því að skera niður framlög til vegamála, í fyrsta lagi á árinu 1989 um 682 millj. kr., og hann hugðist beita sér fyrir því að skera niður framlög til vegamála á árinu 1990 um 1015 millj. kr. sem breyttist nokkuð í meðförum Alþingis þannig að það mun hafa orðið í raun 675 millj. kr. Þegar hæstv. ríkisstjórn undir forustu hæstv. samgrh. í þessum málaflokki starfar með þessum hætti í vegamálum er það ábyggilega rétt orðað að það sé draumsýn að eitthvað sé á döfinni að flýta framkvæmdum í þessum málaflokki hvort sem það er á Vestfjörðum eða annars staðar.