Flugmálaáætlun 1990--1993
Mánudaginn 22. janúar 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hv. 2. þm. Norðurl. v. var hér iðulega í góðu skapi fyrir jólin, geislaði af honum ánægjan með lífið og tilveruna. Ég sé að ekki hefur hann komið illa undan hátíðahaldinu því ekki liggur síður á honum nú og er hrein unun að hitta hann aftur hér við störf í svona góðu skapi og með þessu jákvæða hugarfari. Hann velur sér skemmtileg orð, eins og til að mynda þau að undir forustu samgrh. sé framkvæmdafé til vegamála skorið niður og samgrh. beiti sér alveg sérstaklega fyrir því að ná nú þessu niður, skera þetta niður alveg eins og mögulega sé hægt. Þetta væri nú svo sem allt í lagi ef innstæður væru fyrir orðunum, ef hv. þm. gæti staðið við það sem hann er að segja. Það getur hann að vísu ekki --- og þó, það fer eftir því hvernig forsendur hann gefur sér. Það er til að mynda ljóst að raungildi vegafjár er að aukast milli ára og er meira nú en það var þegar sú ríkisstjórn sem hv. 2. þm. Norðurl. v. studdi, og stýrði reyndar fjárveitingamálum fyrir, skammtaði til þeirra mála. Það vill svo til að hægt er að sýna fram á það með óyggjandi staðreyndum að framkvæmdafé til vegamála er að aukast milli ára, frá og með árinu 1988, bæði í raungildi og sem hlutfall af þjóðartekjum. Að vísu eru þær, hinar nefndu þjóðartekjur, því miður að dragast saman en eftir stendur sú staðreynd að framkvæmdaféð er að aukast. Og þegar það er lagt saman verður mönnum þetta ljóst. Það er hins vegar rétt að miðað við þær vonir sem við gerðum okkur um framlög til þessa málaflokks hér á Alþingi þegar við afgreiddum vegáætlun á vormánuðum 1989 er um lækkun frá þeirri krónutölu að ræða. Það er niðurskurður frá þeirri áætlun en það er ekki niðurskurður frá því sem var veitt til vegamálanna árið þar á undan og árin þar á undan, heldur er þar á ferðinni aukning.
    Þetta hef ég nú reyndar nokkrum sinnum reynt að útskýra fyrir hv. þm. og þm. öðrum og er tilbúinn til að gera það eins oft og þarf og eins oft og menn
vilja. Hvort það er bara draumsýn eða verður að veruleika að við getum, vegna sérstakra aðstæðna á Vestfjörðum og vegna þess að mat manna verði að það sé skynsamleg ráðstöfun, ráðist fyrr í og flýtt þeim samgöngubótum sem þar eru áformaðar samkvæmt gildandi vegáætlun, það verður til umfjöllunar á næstu dögum og m.a. hafði ég hugsað mér að kynna hv. fjvn. það eins fljótt og við verður komið, helst með fundi á morgun. Þá geta hv. þm. og þar á meðal 2. þm. Norðurl. v. fengið hjá mér allar upplýsingar sem þeir vilja um þær hugmyndir um þetta efni sem ég hef kynnt. Ég hef hvorki gert meira né minna en það og ekkert annað hefur komið fram í fjölmiðlum en að ég hef kynnt mönnum hugmyndir um þessa flýtingu, hvað hún kynni að útheimta í fjármagnskostnaði og hvaða tæknilegir möguleikar séu á því að ráðast í þær framkvæmdir.