Flugmálaáætlun 1990--1993
Mánudaginn 22. janúar 1990


     Eiður Guðnason:
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að mótmæla harðlega þeim ummælum sem hv. 2. þm. Norðurl. e. viðhafði hér í þessum ræðustól áðan. Það væri kannski hægt að mælast til þess að hann hlýddi á það sem hér verður nú sagt. Ég vil mótmæla þeim ummælum hans harðlega sem hann viðhafði um hæstv. utanrrh. sem hefur gengist fyrir, á vegum síns ráðuneytis, kynningarfundum um eitt stærsta og mikilvægasta mál sem við höfum þurft að taka afstöðu til, þessi þjóð, þ.e. Evrópubandalagið og EFTA og það sem því tengist. Þau ummæli sem hv. þm. viðhafði hér úr þessum ræðustól voru ekkert annað en dylgjur og dónaskapur, ekki bara í garð hæstv. utanrrh. heldur líka og ekki síður í garð hæstv. og virðulegs forseta þessar deildar. Menn eru orðnir ýmsu vanir frá þessum hv. þm. en nú þótti mér satt best að segja keyra um þverbak í málflutningi hans sem var ekkert annað en dylgjur og dónaskapur, eins og hv. þm. hafa ágætlega heyrt, að ég hygg.
    En ástæða þess að ég kvaddi mér hér hljóðs er sú að inn í þessar umræður hafa spunnist umræður um jarðgöng á Vestfjörðum. Ég verð að segja að það kom mér, sem stuðningsmanni þessarar ríkisstjórnar, afskaplega mikið á óvart að lesa það í blöðum að hæstv. samgrh. hygðist flýta mjög gerð jarðganga á Vestfjörðum, sem er mikið mál og kostnaðarsamt. Mér er kunnugt um, eða ég tel mig vita það, að sú nefnd sem fjallar um jarðgöng eða samgönguleið í mynni Hvalfjarðar hefur lokið störfum. Þar er um að ræða arðbærustu framkvæmd í samgöngumálum, að ég hygg, og ráðherra mótmælir því þá ef því er á annan veg farið. Þá spyr ég: Hvað er að frétta af störfum þeirrar nefndar, hefur hún skilað skýrslu, hvenær eiga þingmenn von á því að sú skýrsla verði lögð á þeirra borð og þeir fái upplýsingar og niðurstöðu þessarar nefndar? Og ég spyr hæstv. ráðherra: Væri ekki frekar ástæða til að flýta þessu verki sem er
einhver arðbærasta framkvæmd í samgöngumálum sem unnt er að ráðast í á þessu landi?