Flugmálaáætlun 1990--1993
Mánudaginn 22. janúar 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Það er nú kannski í framhjáhlaupi að segja það hér, ég hefði átt að biðja um orðið um þingsköp, en ég vildi bara vekja athygli á því að það er ekki rétt sem hæstv. forseti sagði að hv. 2. þm. Norðurl. e. hefði farið fram úr leyfilegum ræðutíma. Ég vek athygli á því að þegar um slík mál er að ræða sem framkvæmdaáætlanir eru ekki takmarkanir á umræðutíma, umræðutími fer eftir almennum reglum.
    Hv. 3. þm. Vestf. talaði um Ísafjarðarflugvöll og nauðsyn þess að gera betur við þann flugvöll en gert er ráð fyrir í þeirri áætlun sem við nú ræðum. Ég tek undir allt sem hv. þm. sagði um þetta efni. Ég er líka ánægður með undirtektir hæstv. samgrh. við mál hv. 3. þm. Vestf. þar sem hann lagði áherslu á, sem er að sjálfsögðu nauðsynlegt, að þetta mál verði sérstaklega tekið fyrir í hv. fjvn., vegna þeirrar sérstöðu sem Ísafjarðarflugvöllur hefur að mörgu leyti og kom hér fram í máli manna.
    Hv. 3. þm. Vestf. kom inn á það sem hann kallaði draumsýn. Það eru hugmyndir hæstv. samgrh. um að flýta jarðgangagerð á Vestfjörðum. Mér fellur ekki þetta orð, draumsýn, því í mínum huga er þetta miklu meira en draumsýn. Þetta getur ruglað menn í ríminu, t.d. tók jafnágætur maður og hv. 2. þm. Norðurl. v. þetta orð upp eftir hv. 3. þm. Vestf. Ef svo góðir menn gera slíkt, hvað er þá um aðra?
    Þetta er ekki draumsýn. Jarðgöng á Vestfjörðum eru ekki draumsýn. Í núgildandi vegáætlun er gert ráð fyrir að hafin verði jarðgangagerð á Vestfjörðum eftir nokkur ár. Það sem verið er að tala um núna, og hefur að mínu viti svo ósmekklega verið kallað draumsýn, eru þær hugmyndir sem fram hafa komið hjá hæstv. samgrh. um að flýta þessu verki. Þetta er mikið fagnaðarefni í byggðum vestra sem augljóst er. Þar hafa forustumenn lýst mikilli ánægju með þessar hugmyndir. Bæjarstjórnirnar á Ísafirði og Bolungarvík hafa gert sérstakar samþykktir til að fagna þessu máli. Það vill svo til að ég var að taka hér úr pósti, þegar ég gekk á þennan fund, bréf frá sýslumanninum í Ísafjarðarsýslu. Ég held að rétt sé að ég undirstriki það sem ég vildi segja um mikilvægi þeirra hugmynda sem núna eru uppi um að flýta jarðgangagerð á Vestfjörðum. Ég held að það sé rétt að ég lesi þetta bréf. Það er, með leyfi hæstv. forseta, svohljóðandi:

"QRÍsafirði, 17. janúar 1990.
    Héraðsnefnd Ísafjarðarsýslu fagnar mjög þeim hugmyndum sem samgönguráðherra hefur kynnt í ríkisstjórninni að flýta gerð jarðganga á Vestfjörðum um fjögur ár. Það er ljóst að aðgerð af þessu tagi væri ein öflugasta viðspyrna gegn frekari byggðaröskun á norðanverðum Vestfjörðum sem hugsast gæti. Bættar samgöngur með jarðgangagerð áður en það er um seinan tengja byggðir og efla menningarlega og félagslega einingu á því svæði sem hér er um að ræða. Með því eina móti er þess að vænta að fólk öðlist að nýju trú á heimaslóðir sínar hér vestra og hverfi frá áformum um flutninga suður

á bóginn.
    Héraðsnefnd Ísafjarðarsýslu hvetur ríkisstjórn og Alþingi til þess að bregðast vel og skynsamlega við þessum hugmyndum og vinna þannig Vestfjörðum það gagn er skipta mundi sköpum.``

    Pétur Kr. Hafstein, sýslumaður Ísafjarðarsýslu, skrifar undir.
    Þetta er svo mikið mál fyrir byggðir Vestfjarða að við verðum að taka það alvarlega. Það hæfir ekki að kalla þetta draumsýn. Menn verða að taka þannig á þessu máli að þetta verði raunveruleiki, að það sé hægt að flýta jarðgangagerð á þessu svæði eins og gert er ráð fyrir með þeim hugmyndum sem fram hafa komið frá hæstv. samgrh.
    Það er sérstök ástæða til þess að leggja áherslu á þetta vegna þess að engum blandast hugur um hve mikla þýðingu þetta hefur fyrir vestfirskar byggðir og eflingu byggðarlaga þar. Það vill svo til að þessa dagana hafa birst opinberar tölur um fólksfjölda í landinu. Og skv. þessum tölum er enn þá mjög alvarleg fólksfækkun á Vestfjörðum. Skv. þessum tölum er íbúatala Vestfjarða, ég hygg í fyrsta sinn síðan reglulegar talningar fóru fram á mannfjölda, komin undir 10 þúsund. Þetta er ákaflega alvarlegt mál fyrir vestfirskar byggðir. Það er nokkuð samhljóða álit manna að jarðgangagerð, sem nú er gert ráð fyrir skv. vegáætlun og nú er verið að tala um að flýta um 4--5 ár, geti haft afgerandi áhrif á það hver verður framvinda í byggðamálum á Vestfjörðum á næstu árum og áratugum. Ég vildi segja þetta til að leggja áherslu á mikilvægi þessa máls, jafnframt því að leggja áherslu á að þetta er ekkert hégómamál sem við getum kallað draumsýn.