Húsnæðismál lögreglunnar í Stykkishólmi
Mánudaginn 22. janúar 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Það er ekki að ófyrirsynju að hv. 3. þm. Vesturl. kveður sér hljóðs utan dagskrár um málefni lögreglustöðvarinnar í Stykkishólmi.
    Vinnueftirlit ríkisins hefur allt frá árinu 1985 gert athugasemdir við Lögreglustöðina í Stykkishólmi. Sumt af þeim aðfinnslum varðar bygginguna eins og raunar kom fram í máli hv. þm. og aðkomu sem ekki er unnt að bæta úr eða er afar dýrt. M.a. má nefna að lofthæð er um 2,40 metrar í þessari byggingu en á að vera 2,50 metrar samkvæmt lögum og reglugerðum. Húsið er afar illa staðsett, stendur uppi á hæð og er illt aðgöngu. Vinnueftirlitið hefur ítrekað þessar aðfinnslur.
    Ráðuneytinu eru þessir ágallar á lögreglustöðinni ljósir. Allt frá árinu 1983 hafa verið kannaðir möguleikar á lausn þessa máls. Á þeim tíma og síðar voru athugaðir möguleikar á að kaupa eða leigja hentugt húsnæði en ekkert af þeim húsum sem þá voru skoðuð var talið koma til greina. Afstaða ráðuneytisins er sú að langheppilegasti kosturinn sé að byggja hentugt hús sem gæti þjónað því að vera lögreglustöð til frambúðar auk þess að hýsa sýsluskrifstofuna.
    Á undanförnum árum hefur ráðuneytið í tillögum sínum til fjvn. Alþingis farið fram á fjárveitingar til byggingar lögreglustöðvar í Stykkishólmi en verið synjað. Fyrir afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1989 var fjvn. gerð grein fyrir fjárþörf vegna þessa verkefnis. Við undirbúning fjárlaga fyrir 1990 fór ráðuneytið enn fram á fjárveitingu og þá 10 millj. kr. til byggingar lögreglustöðvar í Stykkishólmi, en það var fellt niður af Fjárlaga- og hagsýslustofnun. Málið var síðan tekið upp við fjvn. engu að síður á fundi er starfsmenn ráðuneytisins áttu í nóv. sl. og staðfest með bréfi dags. 7. des. sl. þar sem lögð var áhersla á fjárveitingu til þessa verkefnis. Í þessu bréfi segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Núverandi lögreglustöð er ónýt. Vinnueftirlit ríkisins hefur lýst yfir að það muni loka stöðinni. Ráðuneytið hefur til þrautar kannað möguleika á að fá leigt húsnæði. Aðeins kemur til greina að fá leigt skrifstofuhúsnæði án þess að gera ráð fyrir fangaklefum sem er ófullnægjandi lausn. Hér er um hreint
neyðarástand að ræða,,, sagði í þessu bréfi ráðuneytisins til fjvn. Alþingis. Farið var fram á fjárveitingu til nýbyggingar að fjárhæð 10 millj. kr.
    Þegar unnið var að lausn þessa máls á vegum dómsmrn. á sl. hausti við undirbúning fjárlagagerðarinnar var þegar ljóst að eina færa leiðin til að brúa bilið fram til þess tíma að nýbygging kæmist í framkvæmd væri að leita eftir leiguhúsnæði fyrir lögreglustöðina til bráðabirgða sem hægt væri að nýta með sæmilegu móti á meðan. Þá var af ráðuneytisins hálfu leitað til bæjaryfirvalda í Stykkishólmi og brást bæjarstjórinn, Sturla Böðvarsson, mjög vel við að eiga þátt í að útvega viðunandi leiguhúsnæði í þessu skyni. Nú hefur komið

í ljós að slíkt húsnæði sem að vísu fullnægir ekki öllum ýtrustu kröfum en trúlega mun hægt að nýta sem lögreglustöð á meðan hönnun og bygging færi fram er til reiðu til þessara nota. Rétt er þó að taka fram að hluti þessa húsnæðis mun laus innan tíðar en allt húsnæðið síðar.
    En þó að þannig tækist að bjarga þessu máli nánast fyrir horn, og þá með sérstökum velvilja nánast allra sem hlut eiga að máli, svo sem Vinnueftirlits ríkisins, sem hefur sýnt alveg einstakt langlundargeð, bæjaryfirvalda í Stykkishólmi og seinast en ekki síst lögreglumannanna sjálfra þar í Stykkishólmi, mega menn ekki missa sjónar á því aðalatriði þessa máls sem enn vantar, þ.e. að það vantar enn leyfi og samþykki fjárveitingavaldsins hér á hinu háa Alþingi til að hönnun þessarar þörfu framkvæmdar geti farið af stað. Ég tel hins vegar hér um svo brýnt mál að ræða að ég mun enn leita ásjár og samvinnu við fjvn. Alþingis til þess að fullnaðarlausn fáist frá og með næsta fjárlagaári. Ef slík lausn nær fram að ganga og ef hún er í sjónmáli er vitaskuld mun skárra að þreyja þorrann og góuna, og jafnvel ótiltekinn tíma, við ófullkomnar aðstæður en ella væri.