Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Tilefni þess að ég stend hér upp er m.a. það að hæstv. forsrh. gat ekki svarað nægilega þeim spurningum sem til hans var beint áðan vegna þess hve tíminn var naumt skammtaður. Ég vildi þess vegna, forseti, varpa því fram hvort ekki væri ástæða til þess að þessi umræða, þ.e. um þetta mál, fari fram á grundvelli 2. mgr. 32. gr. í þingsköpum. Hér er um mikilvægt mál að ræða sem getur haft mjög örlagaríkar afleiðingar fyrir ekki aðeins viðkomandi fyrirtæki heldur landið í heild og á ég þar einkum við mál það er lýtur að Sambandi ísl. samvinnufélaga.
    Forsrh. sagði m.a. --- og ég vona að hv. þingmenn hafi tekið eftir því --- að skuldir Sambandsins erlendis væru 9--10 milljarðar kr. ( Forsrh.: Heildarskuldir.) Heildarskuldir. Hæstv. forsrh. leiðréttir þetta hér og segir að þetta séu heildarskuldir Sambandsins. Það kom ekki fram í máli hæstv. forsrh. hversu stór hluti væru erlendar skuldir. Það kom heldur ekki fram í ræðu hæstv. forsrh. hvort þessar skuldir, sérstaklega hinar erlendu, væru tryggðar með viðunandi hætti þannig að það þyrfti ekki að óttast það, eins og mér fannst nú koma fram í ræðu hæstv. forsrh., að skuldastaða Sambandsins erlendis gæti hugsanlega skaðað stöðu landsins og þjóðarinnar í heild. Hins vegar sagði hæstv. forsrh. að eignir Sambandsins muni nægja fyrir skuldum. Ég vildi þess vegna spyrja hæstv. forsrh. vegna þessarar fullyrðingar: Hverjar eru nettóeignir Sambandsins? Ég sætti mig ekki við það að hæstv. forsrh. komi hér með órökstudda fullyrðingu í jafnveigamiklu máli og þetta er.
    Ég vil einnig vekja athygli á því, virðulegi forseti, að fyrir tveimur árum lagði ég fram frv. til laga um breytingu á lögum um samvinnufélög, þ.e. frv. sem gerði ráð fyrir að Sambandinu væri skylt, eins og mörgum öðrum stórum fyrirtækjum sem eru mynduð á sambærilegum grundvelli, að færa upp eignir eignaraðila, þ.e. í þessu tilviki færa upp eignir kaupfélaganna í Sambandinu í samstæðum reikningi. Því miður fékk þetta frv. ekki eðlilega afgreiðslu hér á hinu háa Alþingi. Það var svæft í nefnd, því miður. Það hefði verið rétt og eðlilegt að afgreiða frv. því ef það hefði verið gert mundum við núna, hv. þm., vita nákvæmlega hver væri raunveruleg staða Sambandsins og eignarfélaga Sambandsins, þ.e. kaupfélaganna, og þyrftum ekki að vera með spurningar sem þær sem hér hafa verið lagðar fyrir.
    Það er rétt sem hæstv. forsrh. sagði að skuldastaða Sambandsins er erfið og getur skaðað viðskiptastöðu landsins erlendis. Þess vegna er mjög þýðingarmikið að tekin séu af öll tvímæli í þessum efnum, þ.e. um raunverulega eignarstöðu Sambandsins. Það er bæði æskilegt vegna fyrirtækisins sjálfs sem og vegna íslensku þjóðarinnar.