Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Það þarf auðvitað engum að koma á óvart að umræður af þessu tagi fari fram hér á hv. Alþingi og að óskað sé eftir svörum við fyrirspurnum eins og þeim sem hv. 1. þm. Reykv. beindi til forsrh. Ástæður eru auðvitað margar, m.a. yfirlýsingar hæstv. forsrh. og reyndar fleiri ráðherra, og þess vegna er alveg óþarfi að gera mönnum upp annarlegar hvatir í sambandi við þessa umræðu hér eins og hv. 18. þm. Reykv. gerði í sinni ræðu hér áðan. Hér er um að ræða stórmál sem snertir ekki aðeins þetta einstaka fyrirtæki heldur fjöldamörg byggðarlög og, eftir því sem hæstv. forsrh. hefur upplýst, álit Íslands út á við, þ.e. hjá okkar helstu lánardrottnum.
    Ég verð hins vegar að lýsa afar miklum vonbrigðum mínum með það að hæstv. forsrh., hæstv. utanrrh. og reyndar hv. formaður fjvn. skuli hafa látið í ljós það álit að kaup ríkisins á hlut í Íslenskum aðalverktökum þurfi ekki að koma fyrir Alþingi nema í sambandi við hugsanlegar fjárveitingar. Ég segi þetta vegna þess að við höfum verið að ræða hér á undanförnum mánuðum nauðsyn bættrar meðferðar á fjármálum ríkisins og allir hv. fjárveitinganefndarmenn hafa flutt sérstakt frv. til laga um fjárgreiðslur úr ríkissjóði. Í þessu frv. er m.a. gert ráð fyrir að kaup ríkisins á eignum af þessu tagi verði lögð fyrir Alþingi og þess vegna finnst mér það ekki af miklum heilindum mælt hjá þeim sem nú koma og segja að þeir ætli að kaupa þessa eign en ætli ekki að leggja málið fyrir Alþingi.
    Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að frv. hefur ekki verið samþykkt sem lög frá hv. Alþingi en að baki þessu frv. er krafa um nýtt siðferði hjá hæstv. ríkisstjórn og auðvitað gerum við kröfu til þess að því verði framfylgt nú þegar í máli eins og þessu þó að ekki sé búið að samþykkja það frv. sem hér verður væntanlega samþykkt nú á næstu örfáum mánuðum.