Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Þessi umræða hefur verið um margt athygli verð. Hér hafa verið bornar fram ákveðnar fyrirspurnir til hæstv. ráðherra í ljósi þeirra umræðna sem fram hafa farið að undanförnu. Í þeim umræðum hefur komið fram af hálfu hæstv. ráðherra og sérstaklega af hálfu hæstv. forsrh. að Samband ísl. samvinnufélaga ætti við mjög mikla erfiðleika að etja og hefði stefnt Landsbanka Íslands í verulega hættu.
    Yfirlýsingar af þessu tagi hljóta að vekja upp umræður á Alþingi Íslendinga og enginn þarf að undrast að svo sé. Hins vegar kemur í ljós þegar hæstv. forsrh. er spurður hér á Alþingi að fátt er um svör. Bak við hinar stóru yfirlýsingar eru engin svör hér á hinu háa Alþingi. Eftir hinar stóru yfirlýsingar er sagt hér í þinginu að allt sé nú eiginlega í hinu besta gengi hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga. Vonandi er meira að marka þá yfirlýsingu en hinar sem við höfum verið að lesa í blöðunum. Hins vegar stangast hér hvað á annars horn í yfirlýsingum og þess vegna æskilegt að um þetta fari fram umræða.
    Í sjálfu sér þarf ekki að vera neitt óeðlilegt við það að íslensk stjórnvöld aðstoði fyrirtæki sem eiga í erfiðleikum þó að meginreglan sé auðvitað sú að þau eigi að standa á eigin fótum. En Alþingi getur auðvitað ekki þolað að verið sé að pukrast með slík mál, að það sé ekki hægt að skýra hinu háa Alþingi frá því í hverju þau afskipti eru fólgin og með hvaða hætti. Og Alþingi getur auðvitað ekki á það fallist að slíkar ákvarðanir séu teknar án þess að þeir hlutir séu ræddir hér á hinu háa Alþingi og fjárveitingavaldið taki sjálft ákvarðanir að því er varðar þá þætti sem Alþingi Íslendinga á lögum samkvæmt að taka ákvarðanir um. En mér skilst á mjög loðnum svörum hæstv. forsrh. að hæstv. ríkisstjórn sé að reyna að smeygja sér undan því að láta Alþingi í té eðlilegar upplýsingar ef svo er komið fyrir þessu mæta fyrirtæki að það þurfi á opinberri aðstoð að halda. Þess vegna vil ég ítreka
það að fari svo að hér þurfi opinbera fyrirgreiðslu, sem ýmislegt bendir nú til, þar á meðal frumkvæði einstakra ráðherra um það að biðja bankastjóra Landsbankans um að kaupa hlutabréf í Samvinnubankanum á yfirverði samkvæmt fréttum, þá hefur ríkisstjórnin þegar haft af þessu veruleg afskipti.
    Fyrir jólaleyfi báru nokkrir þingmenn fram ósk um að viðskrh. legði fram skýrslu hér á þinginu um hugsanleg eða fyrirhuguð kaup Landsbankans á hlutabréfum Sambandsins í Samvinnubankanum. Ég tók hins vegar eftir því þegar ég kom hér til fundar í dag að þessi skýrsla liggur ekki enn fyrir þinginu. Ég hélt að hæstv. viðskrh. mundi nota jólaleyfið til þess að ganga frá henni og hafði sannarlega búist við því að hún kæmi til umræðu hér í vikunni. Nú vil ég inna hæstv. forsrh. eftir því hvort þess sé ekki að vænta að hæstv. ríkisstjórn ljúki þessari skýrslugerð þannig að unnt sé að taka málið í þessari viku til formlegrar umræðu hér í þinginu.