Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Hæstv. forseti mun ekki hafa verið inni þegar ég vakti athygli á því að hér væri um svo mikilvægt mál að ræða að það er á misskilningi byggt að fjalla um það á grundvelli 1. mgr. 32. gr. um þingsköp. Í ræðu hæstv. forsrh. kom fram að málið er þess eðlis að það gæti skaðað stöðu íslensku þjóðarinnar erlendis hvernig málum Sambandsins reiddi af. Þegar slíkar upplýsingar liggja fyrir hlýtur virðulegur forseti og þingheimur að verða að taka tillit til þess. Ég óska því eftir, virðulegi forseti, að þessi umræða fari fram á grundvelli 2. mgr. 32. gr. ( Forseti: Nú hlýtur forseti að upplýsa að einungis var beðið um umræðu af því tagi sem hér hefur farið fram og slík umræða yrði þá að takast upp á öðrum fundi.) Alveg rétt, forseti. Ég skal fallast á þennan úrskurð og þá mun þessi umræða væntanlega halda áfram þegar sá úrskurður liggur fyrir frá virðulegum forseta.
    Ég skal ekki lengja þessa umræðu. Ég vil hins vegar gera athugasemd við það sem hv. þm. sagði hér áðan um að mér hafi orðið það á að tala um samstæðan reikning hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga. Ég ætlaði auðvitað að segja: Í ársreikning Sambandsins og leiðrétti það hér með. Ég tel eðlilegt að Sambandið, eins og önnur stór fyrirtæki, færi upp eignarhluta eignaraðila í ársreikningum. Ég get ekki séð að neitt sé athugavert við það. Þetta er eðlilegt og mjög sjálfsagt og tryggir að sjálfsögðu þá stöðu og þá ímynd sem viðkomandi fyrirtæki þarf að hafa. Ég ætla ekki að ræða þetta frekar.
    En ég vil ítreka fyrirspurn mína til hæstv. forsrh., ég vil fá svör við því hvað hann átti við þegar hann sagði að eignir SÍS muni nægja fyrir skuldum. Hverjar eru nettóeignir Sambandsins? Hæstv. forsrh. hlýtur að hafa upplýsingar um það, annars hefði hann ekki fullyrt þetta með þeim hætti sem hann gerði áðan. (Gripið fram í.) Já, virðulegur þingmaður er nú að svara fyrir hæstv. forsrh. Ég hugsa að hæstv. forsrh. sé fær um að svara fyrir sig sjálfur. En
hins vegar kom fram í ræðu hæstv. forsrh. að erfið skuldastaða SÍS gæti skaðað viðskiptastöðu landsins erlendis. Ég vænti þess að hæstv. forsrh. skýri nánar hvað hann átti við. Við aðrir sem höfum nokkra þekkingu á þessum viðskiptum vitum að því miður er allt of mikið til í þessari fullyrðingu. Hins vegar höfum við ekkert fullyrt um þetta hér á hinu háa Alþingi. Það hefur forsrh. gert sjálfur og ég óska eftir því að hann færi rök fyrir þessari fullyrðingu á fullnægjandi hátt.