Friðrik Sophusson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég vek athygli á því að hæstv. ráðherra talaði um þingsköp til að bera sakir af fjarstöddum hv. þm. og ráðherra. Ég hlýt þess vegna að fá að taka hér til máls um þingsköp því hér var til sögunnar nefndur fyrrv. þm. og núverandi bankastjóri Landsbankans og bera af honum sakir. Þá eru þeir komnir saman í eina dyngju fjósamennirnir úr Ögri og ég held að það sé rétt að halda þeim saman í einni þingskapaumræðu. (Gripið fram í.) Ef ég fæ frið fyrir þessum Vestfirðingum öllum, virðulegur forseti, þá kemst ég kannski áfram.
    Í fyrsta lagi --- og nú ætla ég að rekja staðreyndir málsins --- þá var það hæstv. fjmrh. sem fyrstur færði það í tal við landsbankastjóra tvo, þá Björgvin Vilmundarson og Sverri Hermannsson, hvort þeir vildu kaupa hlut Sambandsins í Samvinnubankanum.
    Í öðru lagi. Aldrei var gerður annar og meiri samningur milli Sverris Hermannssonar og Guðjóns B. Ólafssonar en það sem kallað var ,,viljayfirlýsing`` enda er það staðfest í gögnum bankans.
    Í þriðja lagi. Nýtt tilboð sem bankaráð Landsbankans gaf á milli jóla og nýárs og samþykkti samhljóða var tilboð sem varð til með fullum afskiptum hæstv. ráðherra, þar á meðal hæstv. viðskrh. Það liggur fyrir. Það var haft samband við hann oftar en einu sinni í síma af núverandi formanni bankaráðs bankans.
    Í næsta lagi vil ég að það komi fram að hæstv. viðskrh. lofaði því 6. jan. sl. að beita sér fyrir því að Landsbankinn borgaði 60 millj. kr. meira en þetta tilboð gerði ráð fyrir. Svo kemur hæstv. utanrrh. og segir að hæstv. viðskrh. hafi viljað lækka verðið á bankanum. Það er öðru nær. Hann vildi hækka verðið frá tilboðinu um 60 millj.
    Þetta verður að koma fram hér, virðulegur forseti, fyrst farið er að nefna þessi mál svo ítarlega.
    Loks er því haldið fram að hæstv. viðskrh. hafi eðli málsins samkvæmt þurft að fara með sín mál því hann gefi leyfi samkvæmt viðskiptabankalögunum um það hvort bankar megi sameinast eða einn banki kaupi annan. Þetta er alveg rétt. En það leyfi liggur ekki fyrir. Og það sem meira er: Nú héldu menn að þetta væri fyrsta skrefið í átt til þess að Landsbankinn yfirtæki Samvinnubankann alveg. Það hefur komið fram í blöðum og verið staðfest að hæstv. viðskrh. gekk lengra. Hann hringdi í bankastjóra Búnaðarbankans og bauð þeim að kaupa afganginn af Samvinnubankanum. Svo koma ráðherrar hér upp í umræðunni áðan og segja: Við höfum ekki haft afskipti af þessum málum.
    Þetta var það, virðulegur forseti, sem ég vildi kalla fram í þessari umræðu. Það tókst kannski ekki í sjálfri umræðunni áðan en það liggur kristaltært fyrir í þessari þingskapaumræðu sem hæstv. utanrrh. hóf, hvernig á þessu máli hefur verið haldið og ég held að hæstv. utanrrh. ætti að kynna sér dálítið betur feril málsins.