Skattskylda orkufyrirtækja
Þriðjudaginn 23. janúar 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um skattskyldu orkufyrirtækja, en kjarni þess er að orkufyrirtæki falli að skattlagningu fyrirtækja hér á Íslandi líkt og önnur fyrirtæki.
    Fyrir nokkrum árum var sú breyting gerð á að bankastofnanir voru teknar inn í almenna löggjöf um skattlagningu fyrirtækja og um nokkuð langa hríð hefur verið um það rætt að eðlilegt væri að önnur fyrirtæki sem hafa verið utan við þessa löggjöf eins og orkufyrirtækin kæmu inn í hana líkt og allur annar atvinnurekstur í landinu, enda er ekki hægt að finna fyrir því skýr og efnisleg rök að á sama tíma og öll atvinnufyrirtæki í landinu, og síðast bankastofnanir, eru látin sitja við sama borð í skattalegu tilliti séu orkufyrirtækin þar undan skilin.
    Með samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 30. nóv. var ákveðið að leggja til við hv. Alþingi að fella niður undanþágu orkufyrirtækjanna frá tekjuskatti. Með þessari ákvörðun er enn fækkað, eins og ég gat um áðan, undanþágum frá tekjuskatti fyrirtækja en síðasta undanþágan í þeim efnum var undanþága banka og peningastofnana. Það er rétt að rifja það upp hér að nokkur ágreiningur var um það á sínum tíma hvort afnema ætti undanþágu banka og peningastofnana frá því að greiða tekjuskatt, en ég held að allir séu sammála því í dag að það hafi verið rétt og eðlilegt skref að afnema þá undanþágu. Í frv. er lagt til að sams konar undanþága fyrir orkufyrirtækin verði einnig afnumin.
    Þótt ákveðin rök kunni að hafa verið færð fyrir því á sínum tíma að undanþiggja orkufyrirtækin frá tekjuskatti er það hins vegar nokkuð ljóst að í því þjóðfélagi sem við búum í í dag og í því hagkerfi sem hér hefur þróast á
undanförnum árum og áratugum eru skilin milli þessara fyrirtækja og annarra fyrirtækja sem eru að fullu skattskyld ekki glögg. T.d. vek ég athygli hv. alþm. á því að orkufyrirtækin greiða launaskatt eins og önnur fyrirtæki, þau greiða önnur launatengd gjöld eins og önnur fyrirtæki, þau greiða virðisaukaskatt af rekstrarvörum eins og önnur fyrirtæki og þau greiða einnig ýmis önnur gjöld líkt og gildir um almennan atvinnurekstur í landinu.
    Í þessu sambandi vil ég sérstaklega árétta að það er mikil og almenn krafa, bæði hér á landi og í nágrannalöndum okkar, að samræmis sé gætt í skattlagningu atvinnulífs þannig að undanþágur og forréttindi af ýmsu tagi, einstakra atvinnufyrirtækja, heyri sögunni til.
    Þeir þm. sem sérstaklega eru miklir kröfugerðarmenn um það að íslenska hagkerfið lagi sig að þeim breytingum sem eru að verða í hagkerfi Evrópulanda, bæði hvað snertir fjármagnshreyfingar og rekstraraðstöðu, ættu þess vegna að huga að því sérstaklega að lykilþátturinn í þeirri samræmingu er samræming á skattlagningu fyrirtækja í þessum löndum. Það er þess vegna ekki samræmi í því að leggja á það ríka áherslu eins og t.d. ýmsir

forustumenn Sjálfstfl. hafa gert að skattaleg samræming sé gerð og fjárhagsleg samræming sé gerð milli Íslands og landa Evrópubandalagsins, eða annarra landa í Vestur-Evrópu, en leggjast síðan gegn því að samræming í skattlagningu fyrirtækja sé innleidd hér hjá okkur. Það er einnig rétt að vekja athygli á því hér að auk opinberra orkufyrirtækja standa einstaklingar að félögum um byggingu og rekstur hitaveitna sem eru skattskyld með venjulegum hætti.
    Í frv. er lagt til að orkufyrirtækin verði skattskyld til tekjuskatts með sama hætti og almennir rekstraraðilar. Um skattlagninguna skulu gilda öll ákvæði laga um tekjuskatt. Leiðir þessi regla til þess að orkufyrirtækjum ber að haga reikningsskilum sínum með þeim hætti er skattalög áskilja, m.a. að því er varðar ákvörðun á því hvað teljist tekjur og hvað teljist gjöld. Reglur almennra skattalaga um endurmat eigna, fyrningar, söluhagnað og verðbreytingafærslur koma því til með að gilda um skattaleg reikningsskil orkufyrirtækja. Einnig eiga við almennar reglur um framtalsskil, álagningu, yfirferð og úrskurð á sama hátt og hjá öðrum lögaðilum. Sama á og við um greiðslur skatta, gjalddaga og innheimtu.
    Í 1. gr. frv. eru skilgreindir og tilgreindir þeir aðilar, stofnanir og fyrirtæki sem skattskyld skulu vera. Hér er um að ræða öll fyrirtæki er selja orku, hvort sem um er að ræða raforku eða varmaorku. Rafmagnsveitur og hitaveitur eru háðar eftirliti og leyfum frá iðnrn. samkvæmt orkulögum nr. 50/1967 og á því að liggja ljóst fyrir hvaða stofnanir og fyrirtæki starfa á því sviði sem hér er til umfjöllunar. Hitaveita Reykjavíkur, Landsvirkjun, Orkubú Vestfjarða og Andakílsárvirkjun starfa eftir sérstökum lögum.
    Ljóst er að um er að ræða fjölbreyttan hóp aðila, allt frá tiltölulega smáum héraðsrafveitum til stórfyrirtækja á borð við Hitaveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun. Jafnframt eru í 1. gr. frv. tekin af öll tvímæli um að skattfrelsisákvæði 4. gr. skattalaga um opinberar stofnanir og fyrirtæki í eigu hins opinbera, svo og annarra laga, eiga ekki lengur við varðandi orkufyrirtæki.
    Í frv. er gerð tillaga um að skattskyldan taki fyrst til rekstrar ársins 1990 og álagning fari fram þess vegna 1991. Jafnframt er þó gert ráð fyrir að
innheimt verði fyrirframgreiðsla vegna þessarar álagningar á síðari hluta árs 1990. Fyrirframgreiðslan taki mið af framtöldum tekjum ársins 1989. Hér er í reynd fetað í sömu fótspor og gert var með bankana á sínum tíma.
    Stofn sérstakrar fyrirframgreiðslu skal vera nettótekjur viðkomandi fyrirtækis á árinu 1989. Skal fyrirframgreiðslan innt af hendi á tímabilinu ágúst til desember 1990 með fimm jöfnum greiðslum. Gjalddagi fyrirframgreiðslunnar er 15. dagur hvers mánaðar og eindagi tíu dögum síðar. Ákvæði laga um launaskatt að því er varðar vanskil, viðurlög vegna vanskila, könnun á skilum, ákvörðun skila vegna vanrækslu eða vanskila á greinargerð, greiðsluskrár, kærufresti, úrskurði á kærum og áfrýjun þeirra skulu

gilda um fyrirframgreiðslu eftir því sem við á. Fyrirframgreiðsla hvers mánaðar skal nema 10% af stofni og skal hún ganga upp í álagningu á árinu 1991 vegna tekna ársins 1990. Komi í ljós við álagningu 1991 að skattskyldur aðili hafi greitt meira í fyrirframgreiðslur en nemur álögðum gjöldum skal ríkissjóður þegar endurgreiða það sem umfram er. Reynist álögð gjöld hærri en fyrirframgreiðsla skal það sem vangreitt er innt af hendi með jöfnum mánaðarlegum greiðslum hinn fyrsta hvers mánaðar það sem eftir lifir álagningarársins.
    Frá og með gjaldárinu 1991 skal fara um greiðslur aðila sem skattskyldir eru eftir lögum þessum eftir ákvæðum XIII. kafla laga nr. 75/1981, með síðari breytingum. Ákvæði þessa kafla gilda einnig um innheimtu á mismun álagningar og fyrirframgreiðslu á árinu 1990 eftir því sem við getur átt.
    Með ákvæðum til bráðabirgða I, II og III er gert ráð fyrir að fram fari endurmat eigna, jafnt mannvirkja sem lausafjár, er mynda fyrningarstofn hjá hinum skattskyldu aðilum. Er þessum atriðum hér skipað á sama veg og gert var við upptöku núverandi fyrirkomulags skattlegra ársreikninga. Einnig eru sérákvæði um ákvörðun á söluhagnaði og sérstaklega tekið á því með hvaða hætti skuli haga verðbreytingarfærslum.
    Ljóst er að reikningsskil og framsetning ársreikninga orkufyrirtækja eru á ýmsan hátt frábrugðin reikningsskilum og þeirri framsetningu er við eiga í skattskilum almennra fyrirtækja. Óhjákvæmilegt er að samræma þessi atriði skattalögum og er endurmatið liður í þeirri samræmingu. Ýmsar eignir orkufyrirtækja, t.d. orkuvirki, lagnir og sérhæfður búnaður, eru sérstaks eðlis og án almenns markaðsgildis en eigi að síður er rétt að hefðbundnum aðferðum skattskila sé beitt við ákvörðun á fyrningarverði þeirra, stofnverði til ákvörðunar á söluhagnaði o.s.frv.
    Með þessum aðdraganda sem kveðið er á um í frv. er orkufyrirtækjunum gefinn kostur á að laga bókhald og uppgjörsvenjur að breytingunni þannig að reikningsskil þeirra verði í samræmi við skattareglur. Vakin er athygli á því að ekki er að svo stöddu gerð tillaga um að fella niður undanþágu orkufyrirtækja frá eignarskatti, enda eignamyndunin talsvert stærri í sniðum á þessu sviði en gengur og gerist. Þennan þátt þarf því að skoða sérstaklega.
    Gert er ráð fyrir að fyrirframgreiðsla skattsins á næsta ári skili a.m.k. 250 millj. kr. í ríkissjóð. Því hefur verið haldið fram að þessi skattlagning hljóti að leiða til hærra orkuverðs til neytenda. Það er auðvitað alls ekki sjálfgefið. Hér er verið að skattleggja hagnað, hreinan hagnað, arð fyrirtækjanna sjálfra, líkt og er um tekjuskattlagningu annarra fyrirtækja í landinu. Fyrirtæki sem tapa borga ekki tekjuskatt. Ef hagnaður orkufyrirtækis kemur fram í lægra orkuverði má halda því fram að þessi skattlagning geti orðið til þess að hækka orkuverðið. Hins vegar er mjög erfitt að fullyrða nokkuð um það á þessu stigi hvort slík skattlagning leiðir til breytinga á orkuverði þótt ýmsir

utan þings hafi fullyrt að svo sé. Jafnvel þótt menn gerðu ráð fyrir einhverri breytingu á orkuverði mundi það í hæsta lagi nema 1--2%. Hins vegar er fróðlegt að skoða þetta mál í ljósi þess hvað hefur verið að gerast hjá Reykjavíkurborg á undanförnum árum vegna þess að ég hef ekki heyrt þá sömu menn sem halda því fram að þetta frv. leiði til hækkaðs orkuverðs gagnrýna þá ráðstöfun Reykjavíkurborgar að taka á þremur árum u.þ.b. 1,3 milljarða, að núvirði, út úr tekjum Rafmagnsveitunnar og Hitaveitunnar í Reykjavík og færa í borgarsjóð. Eigi að halda því fram að það að láta orkufyrirtækin sitja við sama borð í skattlagningu tekna, eins og öll önnur fyrirtæki í landinu, leiði til hækkaðs orkuverðs hljóta hinir sömu menn að fordæma mjög harðlega að yfirvöld í Reykjavík hafa á síðustu þremur árum hagað þannig rekstri þessara fyrirtækja að þau hafa verið látin borga arð í borgarsjóð sem nemur samtals um 1,3 milljörðum á þriggja ára tímabili.
    Ég vil þess vegna í tilefni af þessum ummælum upplýsa það hér að samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árið 1990 er Rafmagnsveitu Reykjavíkur ætlað að greiða 226 millj. og Hitaveitunni 191 millj., eða báðum fyrirtækjunum samtals 417 millj., í borgarsjóð. Það má þess vegna líta svo á að þar sé um að ræða skattlagningu Reykjavíkurborgar á íbúunum sem þessu nemur.
    Á nýliðnu ári, 1989, nam þessi sama skattlagning samkvæmt þessari skilgreiningu að núvirði 430 millj. kr. og á árinu 1988 419 millj. kr. eða samtals úr þessum tveimur fyrirtækjum Reykjavíkurborgar, beint úr fyrirtækjunum og inn í borgarsjóð, umframtekjur, hagnaður eða skattur, eftir
því hvað menn vilja kalla það, sem nemur kringum 1,3 milljörðum kr. á þremur árum.
    Þeir menn sem halda því fram að það að láta orkufyrirtækin greiða tekjuskatt eins og önnur fyrirtæki leiði til hækkunar orkuverðs hljóta þess vegna að varpa fram mjög gagnrýnum spurningum um það hvað þessi 1,3 milljarðar sem Reykjavíkurborg hefur tekið í rekstur Reykjavíkurborgar, vegna hagnaðs Rafmagnsveitunnar og Hitaveitunnar, hafi haft í för með sér fyrir orkuverðið í borginni og er þá rétt að hafa í huga að á sama tíma hafa þessi tvö fyrirtæki, Rafmagnsveitan og Hitaveitan, staðið í stórfelldum framkvæmdum, m.a. veitingahúsabyggingu, sem frægt er orðið, þannig að þessar hagnaðartölur hefðu í reynd getað orðið miklu hærri ef Hitaveita Reykjavíkur hefði ekki ákveðið að fara í samkeppni við einkafyrirtækin í borginni um veitingahúsarekstur. Árið 1987, til upplýsingar, var þessi tala á núvirði 211 millj. kr. og 1986 á núvirði 167 millj. kr.
    Það er því alveg ljóst að Reykjavíkurborg hefur um nokkurt skeið krafið sínar veitustofnanir um að þær greiddu borgarsjóði arð eða, með öðrum orðum, hefur lagt tekjuskatt í formi arðgreiðslna á bæði Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Reykjavíkur. Það er tekjuskattur sem hefur runnið til borgarinnar og er í reynd samkvæmt þeim sama hugsunarhætti og liggur að baki þessu frv., að fyrirtæki á sviði orku

eigi auðvitað að lúta svipuðum rekstrarlögmálum og önnur fyrirtæki, enda hafa þau sjónarmið verið að ryðja sér til rúms mjög víða á Vesturlöndum á síðari árum að þótt ákveðin fyrirtæki séu í eign opinberra aðila þá eigi þau á markaðinum að sitja við sama borð og önnur fyrirtæki, einkafyrirtæki og hlutafélög, greiða sömu skatta, vera háð sams konar arðgreiðslum o.s.frv. Eignarhaldið eigi ekki að veita forréttindi hvað arðgreiðslur og skattaákvæði snertir. Væri það mjög sérkennilegt ef sá flokkur, sem einna helst hefur talið sig styðja einkaframtakið og markaðslögmál, ætlaði hér á Alþingi að gerast talsmenn þess að ríkisfyrirtæki og önnur opinber fyrirtæki sætu við forréttindaborð í skattamálum og arðgreiðslumálum á Íslandi.
    Virðulegi forseti. Þetta frv. snýst því í reynd um mjög einfalda grundvallarspurningu. Það er sú spurning hvort orkufyrirtækin, sem mörg hver eru með auðugustu fyrirtækjum þessa lands, eigi að sitja við jafnréttisborð í skattamálum eins og önnur fyrirtæki og standa skil á tekjuskatti eins og annar atvinnurekstur í landinu.
    Ég minni enn á ný á það að þegar ákveðið var að láta bankastofnanir og peningastofnanir borga tekjuskatt eins og önnur fyrirtæki var það gagnrýnt af ýmsum en nú hafa þær gagnrýnisraddir þagnað. Ég er sannfærður um það að þótt hér á Alþingi kunni að heyrast gagnrýnisraddir á þá skipan sem lögð er til í frv., að þessi síðasta meginundanþága tekjuskattslaganna verði afnumin, muni menn eftir nokkur ár ná jafnbreiðri samstöðu um að það hafi verið sjálfsagt og eðlilegt eins og sú samstaða er sem nú ríkir varðandi skattlagningu banka og peningastofnana. Grundvallarspurningin er sú: Á jafnrétti að gilda í skattalögum á Íslandi eða eiga ríkisfyrirtæki, eða opinber fyrirtæki önnur, að hafa forréttindi í skattamálum?
    Í þessu frv. er lagt til að afnema forréttindi orkufyrirtækjanna í tekjuskattslögunum.
    Ég legg svo til, virðulegi forseti, að að lokinni 1. umr. verði frv. vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.