Skattskylda orkufyrirtækja
Þriðjudaginn 23. janúar 1990


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Herra forseti. Það er sennilega tilgangslaust að segja mikið meira úr því að hæstv. forseti skildi orð mín svo að ég hefði beðið um að formaður Alþfl. kæmi hingað í deildina. Það gerði ég ekki. Það sem ég bað um var það að sá maður sem gegnir embætti iðnaðarráðherra meðan hann er hér heima, Jón Sigurðsson, komi hingað og verði viðstaddur umræðuna. Það var það sem ég bað um. Ef hæstv. forseti lítur á það sem sitt hlutverk að koma í veg fyrir eðlileg orðaskipti þingmanna og ráðherra, ef hæstv. forseti lítur á það sem sitt hlutverk að koma í veg fyrir það að nefndarmenn í fjh.- og viðskn. fái að kynnast skoðunum þess manns sem ber ábyrgð á orku- og iðnaðarmálunum, þá verður hann að eiga við sjálfan sig um það, hæstv. forseti. Hann verður þá bara að vinna þannig og við verðum þá bara að líta á hann þannig sem forseta og það er ekkert við því að gera. Þá sitjum við bara uppi með hann þannig. Ef hæstv. forseti á hinn bóginn vill greiða fyrir þingstörfum og vill bera einhverja virðingu fyrir tíma þingmanna mundi hann núna löngu vera búinn að slíta þessum fundi og þá mundum við halda áfram hér á mánudag.
    Hitt sagði ég við forseta og skal standa við: Það er óvíst að tíminn til sjö verði nógu langur ef hann á að duga mér til þess að gera upp við formann Alþfl. og ég get vel haldið því áfram á morgun. Það er ekki fundartími á morgun nema á milli tvö og fjögur. En ég ætla að tala við hæstv. iðnrh. um þetta mál hér í deildinni eftir helgi. (Gripið fram í.) Jón Sigurðsson. Kosti það sem kosta vill. Það hafa þá fyrr verið haldnar langar ræður hér í þingsölum. Og það er þá skemmtilegt upphaf á þinginu hér í Ed., en ég læt hæstv. forseta ekki komast upp með það að koma í veg fyrir nauðsynleg orðaskipti þingmanna og þess ráðherra sem ber ábyrgð á orku- og iðnaðarmálum.