Lánskjör og ávöxtun sparifjár
Þriðjudaginn 23. janúar 1990


     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Þetta er góð umræða hér um vexti. Ég segi eins og fyrri ræðumenn að maður saknar þess í þessari stóru ríkisstjórn að hafa ekki einn einasta ráðherra viðstaddan, en það er kannski talandi dæmi um það, og það er mín skoðun, að aldrei hafi setið önnur eins ríkisstjórn sýndarmennskunnar og þessi hæstv. ríkisstjórn. Það er þess vegna alveg eins gott að þeir séu ekkert hérna því þetta er allt til að sýnast hvort sem er. Þeir þykjast vera að gera eitthvað, þykjast vera að laga hlutina þegar þeir eru ekki að gera það, þykjast vera að lækka fjármagnskostnaðinn o.s.frv. og eru raunverulega ekki að gera neitt.
    Mér hefur stundum komið það til hugar í sambandi við verðtryggingar --- og ég vil taka það fram út af orðum hv. 16. þm. Reykv. að sjálfstæðismenn eru sammála þeim markmiðum sem koma fram í þessu frv. og ég held að flestir alþm. séu sammála því að fjármagnskostnaður skuli niður. Ég veit ekki um einn einasta alþm. sem ekki vill lækka fjármagnskostnaðinn. En ágreiningurinn snýst kannski frekar um markmiðin, hvernig á að fara að því. Það er kannski ágreiningur um það. Það er mín skoðun að tímabært sé að ræða atriði eins og gegndarlausa seðlaprentun í þessu sambandi. Hlýtur ekki gjaldmiðill landsins alltaf að verða verðlagður og vextir í landinu í samræmi við prentunina á hverjum tíma? Er það ekki jafnljóst og tvisvar sinnum tveir eru fjórir að það er ekki hægt að þynna út gjaldmiðil lands með lántökum og prentun öðruvísi en að það komi einhvers staðar fram?
    Þessi hæstv. ríkisstjórn held ég að eigi Íslandsmet í því að slá erlend lán eins og gert var hér haustið 1988, talandi um það á hverjum degi að verið væri að redda útflutningsatvinnuvegunum, slá erlend lán og lána þessum atvinnuvegum á kolvitlausu gengi, stórfé í erlendum gjaldeyri, verðandi svo á síðasta ári, 1989, að kolfella gengi krónunnar. Ekki þó alveg í samræmi við alla
prentunina. En hvað gerðist við þetta, að taka lánin og lána þau fyrirtækjunum á röngu gengi og laga síðan gengið eftir á? Hvað gerðist? Það var étið upp stórlega eigið fé þessara fyrirtækja. Það voru nú allar gjafirnar. Og það má segja það að hver er sínum gjöfum líkastur.
    Ég held að ekki fari hjá því að inn í þessa umræðu um vísitölu og vexti komi einnig ágætt frv. sem hv. fjvn. hefur lagt fram um fjárgreiðslur úr ríkissjóði, sem er náskylt þessu máli, vegna þess að ónákvæmni í stjórn ríkisfjármála er einn af orsakavöldum verðbólgu hér á landi. Ætli hallinn á fjárlögum síðasta árs sé ekki nálægt 10 milljörðum? Það átti að verða 650 millj. kr. hagnaður. Verulegur hluti af þessum 10 milljarða halla er fjármagnaður með erlendum lánum og seðlaprentun. Og til hvers leiðir það nema til vaxtahækkunar og vísitöluhækkunar og gengisfellingar?
    Ég vil endurtaka það að markmiðið með frv. er gott en það er ekki allt sem sýnist. Það er ekki nóg að festa gengið og halda síðan áfram að prenta. Það

vantar þannig eitthvað inn í frv. í sambandi við prentunina.
    Ég er alveg sammála því að unga fólkið hér í landinu á erfitt uppdráttar að eignast þak yfir höfuðið í þessu kerfi eins og það er. En það er nú einu sinni svo að við sitjum hér uppi með hálfsósíalíska ríkisstjórn ef ekki alsósíalíska árið 1990 sem er náttúrlega eins og hróp í eyðimörkinni þegar austantjaldslöndin eru farin að viðurkenna þetta sem öskuhaugamat, að það skuli þá vera reynt að handstýra og menn skuli enn þá hafa trú á því hér á Íslandi að einhver kerfi miðstýringar og handstýringar skuli ganga upp, sem er svo gjörsamlega vita vonlaust og búið að prófa það þarna fyrir austan. Hvað eru menn að gera Íslendinga að einhverjum fórnarlömbum og tilraunadýrum í sambandi við miðstýringu og sósíalisma? Ætla menn að halda áfram að berja höfðinu við steininn endalaust og styðja svona athafnir?
    Sjálfstfl. samþykkti í fyrrahaust að auka frjálsræði í gjaldeyrisviðskiptum og það tel ég að sé góð ráðstöfun að því leyti að þá kemur upp aðhald á seðlaprentunina. Þá verður gjaldmiðill landsins verðlagður í samræmi við seðlaprentunina. Þannig neyðast menn til að taka á þeim vanda og þannig er hægt að halda jafnvægi. Þá geta fyrirtækin tekið lán á réttu gengi en ekki röngu. Eins og ég segi var það hin hroðalegasta ráðstöfun sem ég hef orðið vitni að að fyrirtækjunum var lánaður erlendur gjaldmiðill í stórum stíl, seinast á árinu 1988 og fram eftir árinu 1989. Síðan fengu menn gengisfellingarnar framan í sig og hvað sýna ársreikningar þessara sömu fyrirtækja annað en tuga og hundraða millj. kr. tap, og allt er í fína lagi, segja þeir, þessir háu herrar.
    Ég vil nú gjarnan spyrja, ef einhverjir hv. þm. eiga eftir að ræða um þetta mál, hvað þeim finnist um þessa seðlaprentun. Vilja menn ekki ræða seðlaprentunina? Er ekki kominn tími til þess að ræða hana? Er ekki kominn tími til þess að ræða það að síðan árið 1918 hefur mynd af Jóni Sigurðssyni forseta verið prentuð sjö sinnum á peningaseðil, síðast árið 1981, og nú er hann enn í gildi, 500 kr. seðillinn. Sex sinnum er búið að prenta Jón Sigurðsson forseta á peningaseðil og setja hann aftur í úreldingu. Er ekki
kominn tími til þess að fara að skoða þessa prentun?
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri.