Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 23. janúar 1990


     Sólveig Pétursdóttir:
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér er til umræðu og er flutt af fjórum kvennalistakonum er vissulega allrar athygli vert. En mér þykir þó rétt að geta þess og það vakti nokkra athygli mína að tveir varaþingmenn Sjálfstfl. hafa flutt tvö frv. sem að meginstefnu til byggja á sömu hugmyndum og það frv. sem hér er til umræðu en ég varð ekki vör við að þessara mála væri hér getið. En það er vissulega gleðilegt að kvennalistakonur hafa nú séð ástæðu til þess að taka undir hugmyndir sjálfstæðismanna í þessum efnum. Mig langar til þess að gera aðeins grein fyrir þessum tveim málum.
    Fyrra málið fjallar um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og var flutt hér í hv. deild á 110. löggjafarþingi, 92. mál, en þar segir í 1. gr.:
    ,,Heimilt er framteljanda að nýta óráðstafaðan skattafslátt barna sinna eldri en 16 ára sem lögheimili eiga hjá framteljanda.``
    Og í greinargerð segir svo í upphafi:
    ,,Lög um tekjuskatt og eignarskatt kveða á um það að hjón, eða sambýlisfólk, geti yfirfært ónýttan skattafslátt annars þeirra til hins sem hærri hefur tekjurnar. Nú er það svo að börn eldri en 16 ára sem enn eru í skóla ná því varla að afla svo mikilla tekna að skattafsláttur þeirra nýtist að fullu. Börn á þessum aldri þurfa mikið til sín og útlagður kostnaður foreldra er meiri vegna þeirra á þessum árum en nokkrum öðrum. Því má telja eðlilegt að foreldrar geti yfirfært til sín ónýttan skattafslátt barns síns með svipuðum hætti og nú er gert á milli hjóna. Þetta er ekki síst mikilvægt fyrir einstæða foreldra sem oft á tíðum standa að mestu leyti ein straum af kostnaði vegna uppeldis og menntunar barna sinna.``
    Seinna málið þar sem ég var fyrsti flm. og voru fleiri flm. var flutt á 111. löggjafarþingi, að vísu í Ed., 263. mál. Þar er gert ráð fyrir því að persónuafsláttur milli hjóna geti orðið að fullu millifæranlegur, þ.e. færist
úr 80% upp í 100%. Með leyfi forseta langar mig til þess að rekja hér nokkur atriði úr grg. Þar segir m.a.:
    ,,Staða og réttindi heimavinnandi fólks hafa að undanförnu verið nokkuð í brennidepli. Í því sambandi hefur verið sýnt fram á ýmiss konar mismunun gagnvart þeim fjölskyldum sem háðar eru því að annað hjónanna afli tekna en hitt sé heimavinnandi. Hlýtur það að vera andstætt þeirri fullyrðingu, sem oft heyrist í þjóðmálaumræðunnni, að fjölskyldan sé hornsteinn þjóðfélagsins og standa beri vörð um hagsmuni hennar.
    Árið 1986 var lögð fram till. til þál. um réttarstöðu heimavinnandi fólks. Í 4. tölul. 2. mgr. í grg. með þeirri till. segir: ,,Heimavinnandi fólk situr ekki við sama borð og aðrir þegnar þjóðfélagsins hvað varðar skattlagningu og lýsir það sér m.a. í því misrétti að heimili með eina fyrirvinnu ber hærri skatta en þar sem tekjur heimilisins eru afrakstur vinnu tveggja.`` Fyrsti flm. þessarar till. var Jóhanna Sigurðardóttir en hún hefur nú sem félmrh. skipað nefnd sem ætlað er

að kanna réttarstöðu heimavinnandi fólks. Þar sem hér er um víðtækt verkefni að ræða má gera ráð fyrir því að slík könnun taki nokkurn tíma.``
    Enn fremur er bent á að sýnileg mismunun felist í núverandi ákvæðum skattalaga og að engin rök geti réttlætt þá mismunun.
    Enn fremur segir í grg.: ,,Þau sjónarmið hafa að vísu verið reifuð í þessu sambandi að ekki megi raska þeirri skiptingu skattbyrðar sem ríkt hafi undanfarin ár og að takmörkun á millifærslu persónuafsláttar sé þáttur í þeirri viðleitni að halda ríkjandi skipun. Flutningsmenn hafa ekki séð neinn rökstuðning fyrir þessari skoðun né að leiddar hafi verið fram neinar staðreyndir sem gætu stutt hana, enda ,,skattbyrði`` mjög afstætt hugtak.``
    Þá er þess enn fremur getið í þessari greinargerð að sú upphæð sem hér er um að ræða, þ.e. sérstakur skattur, sé allt að 43 þús. kr. á ári sem er lagður á þau heimili þar sem annað hjóna sinnir einungis heimilisstörfum. Sýna mætti fram á að sparnaður þjóðfélagsins af slíkri skipan mála á heimilum, sérstaklega á umönnunar- og uppeldissviði, sé verulegur og að refsiskattar eigi því ekkert erindi á þennan vettvang.
    Enn fremur er tekið fram í grg. með þessu frv. að engar tölur séu handbærar um þann kostnað sem þetta frv. hefði í för með sér fyrir ríkissjóð, en Þjóðhagsstofnun hafði þó lauslega metið þennan kostnað á bilinu 500--700 millj. kr. og lýkur grg. með þessum orðum: ,,Gera má ráð fyrir því að þessa fjárhæð sé ekki hægt að reikna út með óyggjandi hætti fyrr en endanleg skattaálagning liggur fyrir. En spyrja má, nú á tímum aukinna skatta á öllum sviðum, hvort ekki sé, með góðum fyrirvara, færi á örlítilli tilslökun á skattlagningarspennunni á þeim stöðum þar sem heill og hamingja fjölskyldunnar gæti verið í veði.``
    Þannig voru efnislega þessi tvö frv. sem ég vildi ræða hér sérstaklega og taldi ástæðu til að benda á.
    Í grg. með því frv. sem hér liggur fyrir er ekki reynt að meta hugsanleg útgjöld ríkissjóðs í þessu sambandi en ég tel að slíkt hefði átt að reyna. Enn
fremur kemur fram í grg. að það er verið að gera athugasemdir við það að aðeins hjón geti millifært ónotaðan persónuafslátt og að kvennalistakonur hafi verið á móti því. Ég get ekki séð að það sé rétt að gera lítið úr þeirri hagræðingu sem hjón eða sambýlisfólk nýtur. Fólk á að geta valið hvort annar maki er heimavinnandi, t.d. við umönnun ungra barna. Slíkt hlýtur að hafa mikið þjóðfélagslegt gildi. Hins vegar er sjálfsagt að taka undir það með flm. þessa frv. að óréttlæti geti falist í því að gera upp á milli heimila eftir sambúðarformum og einstætt foreldri með börn ætti að geta notið sama réttar og hjón eða sambúðarfólk. Vafalaust er einnig rétt að taka undir ýmis orð sem komu fram í ræðu hv. 1. flm. hér áðan þess efnis að einstæðir foreldrar eigi nú um sárt að binda að því er lífsafkomu varðar.
    En það er einnig rætt um það hér í frv. að persónuafsláttur eigi að vera 100% millifæranlegur en

ekki 80% eins og nú er. Ég man vel eftir þessari umræðu sem átti sér stað og ég man eftir því að konur sérstaklega höfðu orð á því, þar sem það var nú meiri hluti þeirra sem var heimavinnandi makinn í þessu tilviki, að þeim þótti sem þær væru aðeins metnar að hluta til sem þjóðfélagsþegnar, bara 80%. Þótti þeim það mjög miður og það er mjög skiljanlegt. Þess vegna styð ég þetta sjónarmið kvennalistakvenna fullkomlega.
    Hæstv. forseti. Það er vert að minnast þess að ekki er mjög langt síðan börn og unglingar nutu aðeins takmarkaðrar skólagöngu, oft vegna þess að þau þurftu að fara út að vinna og afla þannig fjár fyrir heimilið, ekki síst þar sem barnahópurinn var stór og gerðist þetta jafnt hjá einstæðum foreldrum og hjónafólki. Þetta hefur vitanlega gerbreyst til batnaðar. En samt er ástæða til að hafa vara á. Í þessu sambandi þykir mér rétt að benda á efnahags- og skattastefnu hæstv. ríkisstjórnar en sú stefna hefur þrengt verulega að lífsafkomu fólks og vitanlega getur slíkt komið niður á skólagöngu barna og unglinga. Það er því full ástæða til að vekja athygli hv. þm. hér í deildinni á þessari hættu og hvetja þá til stuðnings á tillögum sem þessum sem geta horft til bóta og eru raunhæfar.