Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Samkvæmt lögum nr. 75/1981 var gert ráð fyrir því að heimilt yrði að leggja á 0,25% á eignarskattsstofn manna umfram tiltekin mörk. Gert var ráð fyrir því í lögunum, svo og í lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, að skattskylt mark til sérstaks eignarskatts skv. lögum þessum skyldi breytast samkvæmt skattvísitölu, sbr. 122. gr. skattalaganna og í fyrsta sinn á gjaldárinu 1991, skv. skattvísitölu gjaldársins 1991.
    Nú er það svo að í fjárlögum fyrir árið 1990 er skattvísitala ekki ákveðin. Og þar sem gert er ráð fyrir því að breyta á þessu ári lögum um tekju- og eignarskatt er af þeim sökum nauðsynlegt að breyta skattskyldu marki til sérstaks eignarskatts með sérstakri löggjöf. Hér er lagt til að sú breyting verði gerð á þessum lögum sem er í samræmi við þær forsendur sem fjárlög ársins 1990 byggja á.
    Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. Þó að málaflokkurinn falli undir menntmrn. og menntamálanefndir er hér um að ræða hreint skattafrv. í raun og veru þar sem gert er ráð fyrir því að ákvæði þessara laga samræmist forsendum fjárlaga að því er tekjuöflun ríkisins varðar. Því tel ég eðlilegt að fjh.- og viðskn. fjalli um málið svo sem venja er þegar hliðstæðar breytingar hafa átt sér stað á líkum lögum.
    Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, herra forseti.