Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Samkvæmt þeim lögum sem hér eru á dagskrá er gert ráð fyrir því að leggja á 0,25% á eignarskattsstofn umfram tiltekið mark til þess ... ( Gripið fram í: Er ekki verið að tala um frv.?) Frv., en lögin eru einnig til umræðu vegna þess að frv. er um breytingu á tilteknum lögum.
    Í lögunum er gert ráð fyrir því að þessum fjármunum verði varið til byggingar Þjóðarbókhlöðu, í fyrsta lagi, og endurbóta annarra menningarstofnana í öðru lagi. Í lögunum er gert ráð fyrir að sjóðnum verði heimilt að taka lán og það voru engar brtt. við það ákvæði frv. þegar þetta frv. var til meðferðar hér á síðasta þingi. Það er því út af fyrir sig ekki þannig að þetta hafi verið fundið upp í þröngri stöðu ríkisfjármála á þessum vetri, að heimila þeim sjóði sem hér um ræðir að taka sérstakt lán.
    Þessum fjármunum sem koma inn af sérstökum eignarskattsauka er varið á árinu 1990 í samræmi við ákvæði laganna að því frádregnu að þessi fjárfestingarsjóður er, eins og aðrir sjóðir, skertur um 25% samkvæmt ákvæðum lánsfjárlaga. Að því frádregnu er sjóðnum varið sem hér segir:
    Til framkvæmda undirbúnings við Þjóðminjasafn 11 millj. kr. Til framkvæmda undirbúnings við Þjóðskjalasafn, þ.e. endurbætur á Mjólkurstöðinni sem keypt var undir Þjóðskjalasafn fyrir nokkrum árum, 10 millj. kr. Vegna Þjóðleikhúss 125 millj. kr. Vegna Þjóðarbókhlöðu 67 millj. kr. eða samtals 220 millj. kr. Auk þess er gert ráð fyrir að Háskólinn leggi Þjóðarbókhlöðunni til á þessu ári 53 millj. kr. þannig að samtals hefur Þjóðarbókhlaðan til verkefna og framkvæmda á þessu ári 120 millj. kr. og er það hærri upphæð að raunvirði en nokkurn tíma hefur áður verið varið til Þjóðarbókhlöðunnar. Næsthæsta upphæðin er á árinu 1989. Þá var varið í þessu skyni 90 millj. kr.
    Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að raunasaga þessa húss er orðin geysilega löng og það hefur tekist stundum að fá hér upp í þessum ræðustól og hinum
ræðustól þingsins mikla svardaga til stuðnings þessu húsi. Ég hygg að fá hús njóti jafnvíðtækra og margra svardaga af hálfu stjórnmálamanna og þetta hús. Engu að síður er það svo að næsta illa hefur gengið að fá menn til þess við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni að setja í þetta hús þá fjármuni sem eru í rauninni samboðnir upphafi þess, þ.e. því að þjóðin sé að gefa sjálfri sér gjöf með þessu húsi.
    Ég tel að sú ákvörðun sem tekin var undir forustu Sverris Hermannssonar um að leggja á sérstakan eignarskattsauka í þessu skyni hafi verið myndarleg, hún hafi verið skynsamleg. Lögin sem sett voru hér á síðasta þingi staðfestu þessa stefnu í raun og henni er fylgt í grundvallaratriðum á þessu ári, eins og hér hefur komið fram í máli mínu, þar sem varið er í endurbætur menningarstofnana af margvíslegu tagi 220 millj. kr. Hitt er hins vegar ljóst að til þess að ljúka Þjóðarbókhlöðunni á árinu 1992 eins og ætlað hafði verið duga þessir fjármunir ekki á árinu 1990. Af

þeim ástæðum hef ég gert ráð fyrir, miðað við fjárveitingar á þessu ári og fjárveitingar á næsta ári, í samræmi við þá stefnu sem m.a. var mörkuð í samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir og hv. 2. þm. Norðurl. e. vitnaði til, að unnt verði að opna þetta hús til fullrar starfsemi á árinu 1994, fyrir 50 ára afmæli íslenska lýðveldisins.
    Á árinu 1990 er sem sagt um að ræða 120 millj. kr. framlag í þetta verkefni, annars vegar 67 millj. kr. úr þessum sjóði og hins vegar 53 millj. frá Háskólanum. Hv. 2. þm. Norðurl. e. vitnaði til samþykktar í ríkisstjórninni. Það er ekki rétt að gerð hafi verið samþykkt í ríkisstjórninni um það að þessir fjármunir skyldu fara til Þjóðarbókhlöðunnar á árinu 1990. Það var hins vegar farið yfir þessi mál lið fyrir lið og kannað þar hvað það mundi kosta á fjórum árum að ljúka þessu verki. Það er engin óvissa um það af hálfu byggingarnefndar Þjóðarbókhlöðunnar hvaða fjármuni hún hefur til ráðstöfunar á árinu 1990. Það er engin óvissa uppi í þeim efnum. Niðurstaðan liggur fyrir, m.a. í fjárlögum þessa árs sem hver maður getur kynnt sér.
    Varðandi svo aftur það sem hv. þm. gat um, að Endurbótasjóðurinn hefði fengið heimildir til þess að taka lán á árinu 1990, þá er það rétt. Það eru lántökur sem annars vegar fara til Þjóðleikhússendurbótanna upp á 150 millj. kr. og hins vegar lántökur vegna endurbóta á Bessastaðastofu sem mig minnir að séu einnig 150 millj. kr. eða lántökur í gegnum þennan sjóð séu samtals um 300 millj. kr. Og auðvitað væri betra ef framlög væru til. Auðvitað væri betra ef ekki þyrfti að taka lán í þessu skyni, en ég minni á, herra forseti, að við meðferð allra þessara mála og afgreiðslu fjárlaga í síðasta mánuði komu engar brtt. fram varðandi þessa þætti sérstaklega. Ég verð hins vegar að segja það að ég fagna þeim mikla áhuga sem fram kemur í máli hv. 2. þm. Norðurl. e. á því að rífa áfram framkvæmdir með Þjóðarbókhlöðuna og og þau fyrirheit sem málflutningur hans gaf hér áðan verða örugglega hagnýtt á komandi mánuðum með einhverjum hætti, innheimt þannig að sá pólitíski vilji sem birst getur hér í þinginu bestur verði tryggður til stuðnings þessu húsi sem á að opna fyrir 50 ára afmæli lýðveldisins á árinu 1994.
    Hv. þm. spurði um útboð í þessu efni og um útboðsmál. Ég get ekki svarað því
í einstökum atriðum, en aðeins sagt þetta. Byggingarnefnd Þjóðarbókhlöðunnar hefur allar upplýsingar sem hún þarf að hafa um það hvaða fjármuni hún hefur til ráðstöfunar á árinu 1990 og þarf ekki að velkjast í neinum vafa þar um.