Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Þær tölur sem ég fór með um ráðstöfun á fjármagni Endurbótasjóðs menningarstofnana eru fengnar frá embættismanni og eru í samræmi við þær upplýsingar sem eru hér í fjárlögum fyrir árið 1990. Nú má vera að ég og þessi embættismaður höfum lesið vitlaust út úr þeim, en þar stendur um fjármunahreyfingar út úr Endurbótasjóði menningarstofnana að til Þjóðleikhúss renni 275 millj. kr. en til Byggingarsjóðs Þjóðarbókhlöðu 67 millj. kr., tekin lán séu 300 millj. og ráðstöfun eigin fjár 42.
    Ég vil út af þeim ummælum sem hæstv. menntmrh. viðhafði varðandi samþykkt ríkisstjórnarinnar taka fram að ég hef hér í höndum fundargerð samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir frá 10. ágúst 1989, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þjóðarbókhlaða. Lagt fram bréf menntmrn. dags. 2. ágúst sl. þar sem óskað er eftir heimild nefndarinnar til að bjóða út 10. áfanga byggingar Þjóðarbókhlöðu. Samkvæmt vinnuskjali starfshóps um bygginguna sem fylgdi í ljósriti er lagt til að ,,10. áfangi, þ.e. frágangur loftræsiklefa, kaup og uppsetning búnaðar í hann, verði boðinn út og lokið eftir því sem tími leyfir.`` Áformað er að vinna fyrir 125 millj. kr. á árinu og eru það 35 millj. kr. umfram fjárveitingu fjárlaga fyrir árið 1989.
    Samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er ákveðið að Þjóðarbókhlaðan verði fullgerð innan fjögurra ára og með samþykkt 27. júlí sl. mun hún hafa samþykkt eftirfarandi áætlun um fjármögnun byggingarinnar: Á árinu 1989 125 millj. kr., árið 1990 242 millj. kr., á árinu 1991 269 millj. kr. og árið 1992 368 millj. kr. eða samtals 1 milljarður 4 millj. kr.``
    Svo mörg voru þau orð en samkvæmt þessari fundargerð, eins og hún liggur fyrir í ljósriti sem ég hef hér fyrir framan mig, hefur ríkisstjórnin samþykkt á fundi sínum 27. júlí sl. að framlög til Þjóðarbókhlöðu á árinu 1990 yrðu 242
millj. kr. Það eru svo bara ný yfirlýsing og nýtt loforð og ný fyrirheit þegar hæstv. menntmrh. talar um það að Þjóðarbókhlaðan verði opnuð á árinu 1994. Það vita nú allir að hann verður ekki ráðherra þá. Hans flokkur mun ekki eiga aðild að ríkisstjórn þegar þar er komið og kemur þess vegna ekki í hans hlut að efna slíkt loforð. En málið er að ekki hefur verið staðið við þau fyrirheit sem gefin voru í sumar um Þjóðarbókhlöðuna. Og það er eftirtektarvert að hæstv. menntmrh. lofaði mjög þá ákvörðun að eignarskattsaukinn skyldi lagður á. Samkvæmt fjárlögum nemur hann á þessu ári 265 millj. kr., eignarskattsauki einstaklinga 100 millj. og eignarskattsauki félaga 165 millj., og nú sýnist mér að Þjóðarbókhlaðan eigi að fá af þessu ( Menntmrh.: Hún fær af þessu 67.) 67 millj. kr. Síðan frá Háskólanum 53 og um það ber okkur saman. Þetta sýnir nú hvernig komið er fyrir þessum eignarskattsauka.
    Það er mjög algengt í ýmsum tilvikum að

ríkisstjórnir og ráðherrar koma til okkar þingmanna og segja: Samþykktu nú þennan skattauka í viðbót, þennan eigarskattsstofn, hann á að fara í Þjóðarbókhlöðuna. Og svo kemur samgrh. og segir: Eigum við ekki að hækka pínulítið bensínið, og öll hækkunin á að fara í vegina. Síðasti myndarskapurinn er sá að hæstv. samgrh. er búinn að lofa þeim göngum fyrir vestan gegn því að bensínið verði 4--5 kr. dýrara frá Dýrafirði til Súðavíkur en annars staðar. ( KP: Þetta er ekki rétt. Þetta er rangt, algjörlega rangt.) Er þetta algjörlega rangt? ( KP: Algjörlega rangt, já.) Ég hef þetta nú ekki eftir vondum mönnum. (Gripið fram í.) En þetta var sú tillaga sem ég sá um tekjuöflun. Þá var þetta inni að bensínið yrði þetta dýrara á þessum slóðum. En svo er mér líka sagt að ráðherranum hafi dottið í hug að hækka bensínið um 4--5 kr. á Dalvík og Ólafsfirði en fengið þar slíkar móttökur að hann hafi byrjað að heykjast á hugmyndinni. A.m.k. þori ég að ábyrgjast að ráðherrann sér um að við þurfum ekki að borga bensínið dýrara fyrir norðan. En það er annað mál.
    Aðalatriði þessa máls er að þessi eignarskattsauki rennur ekki til þess sem búist hafði verið við. Það er kjarni málsins. Ég er alveg sammála menntmrh. um það að það voru mikil glöp að setja inn í lögin um Endurbótasjóð menningarstofnana að honum sé heimilt að taka erlend lán, og það er alveg sjálfsagt að taka það mál til endurskoðunar í fjh.- og viðskn. nú þegar frv. kemur þangað. Auðvitað eiga stofnanir sem hafa allar tekjur sínar í gegnum A-hluta ríkisreiknings, sem hafa engar sjálfstæðar tekjur, ekki að hafa heimild til lántöku. Auðvitað eiga lántökur til slíkra stofnana ekki að þekkjast. Ráðstöfunarfé til slíkra stofnana á hins vegar að vera ákveðið með venjulegum hætti í gegnum A-hluta ríkisreiknings. Í þessu tilviki eru lögin sem sagt til þess að hjálpa fjmrh. að stoppa upp í 300 millj. af gatinu. Tilgangurinn helgar meðalið. Maður áttaði sig ekki á þessu á sínum tíma, en nú er komið í ljós til hvers þetta er notað og það eru 300 millj. Hæstv. ráðherra talaði líka um það heldur glaðhlakkalega þegar hann tók við að þetta ætti allt að vera hallalaust.
    Að síðustu sakna ég þess, hæstv. forseti, að hæstv. menntmrh. skuli ekki hafa hugmynd um það hvernig gengur að bjóða út nýja verkþætti í
Þjóðarbókhlöðunni, en ég mun hins vegar gera ráðstafanir til þess að við fáum upplýsingar um það í fjh.- og viðskn. hvernig það mál stendur þannig að við getum þá skýrt ráðherranum frá því þegar málið kemur aftur til deildarinnar.