Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég verð nú að hryggja hv. þm. með því að þegar hann var að spyrja mig um útboðið í fyrri ræðunni áttaði ég mig ekki á hvaða áfangi það var sem hann var að bjóða út í ræðu sinni og vildi að ég svaraði til um. Nú heyrði ég það áðan hvaða áfangi það er. Það er 10. áfangi, og hvernig stendur hann? Honum lauk fyrir áramót. Og hvernig var hann fjármagnaður? Hann var fjármagnaður með sérstakri aukafjárveitingu sem var samþykkt af ríkisstjórninni í júlí eða ágúst sl. sumar og sú aukafjárveiting var síðan staðfest með fjáraukalögum fyrir áramót ( KP: Þetta er allt búið?) þannig að þetta er afgreitt mál.
    Varðandi sjóðinn er bersýnilega nauðsynlegt að stafa það enn þá frekar hér til þess að skýrt sé um hvað er verið að tala. Endurbótasjóðurinn hefur á þessu ári í tekjur 265 millj. kr. af sérstökum eignarskattsauka. Frá því dragast, eins og ég sagði áðan, 25%, þessi 25% sem allir sjóðir voru skertir um samkvæmt fjárlögum og lánsfjárlögum. Eftir standa þá 224 millj. kr. Þessir fjármunir, sem eftir standa, fara í það sem hér segir:
    Í fyrsta lagi í Þjóðarbókhlöðu, 67 millj. kr., í öðru lagi í Þjóðleikhús, 125 millj. kr., í þriðja lagi í Þjóðminjasafn, 11 millj. kr., í fjórða lagi í Þjóðskjalasafn, 11 millj. kr., eða samtals um 220 millj. kr. Þessi sjóður hefur í raun og veru meiri fjármuni til ráðstöfunar en þetta. Hann hefur að auki lánsfé upp á 300 millj. kr., annars vegar 150 millj. kr. vegna Þjóðleikhússins, þannig að samtals er varið í Þjóðleikhúsið 275 millj. kr. af fjárveitingum þessa árs, og hins vegar eru 150 millj. kr. í gegnum þennan sjóð sem fara til þess að fjármagna endurbætur á Bessastaðastofu.
    Ég taldi mér skylt að skýra þessi mál og svo að lokum það að hv. þm. sagði að sjóðir eins og þessir ættu ekki að taka lán eða hafa lántökuheimildir af því að þeir hefðu enga sjálfstæða tekjustofna. Það er rangt hjá hv. þm. Þessi
sjóður hefur sjálfstæðan lögbundinn tekjustofn samkvæmt lögum sem voru samþykkt hér á Alþingi í fyrra.
    Ég tel að það hafi verið mikil framsýni og mjög skynsamlegt af Sjálfstfl. að beita sér fyrir því að leggja skatta á miklar eignir í þágu menningarstarfseminnar en satt að segja hefur mér fundist að undanförnu að þessi framsýni andi Sverris Hermannssonar svifi ekki beinlínis yfir vötnunum í málflutningi Sjálfstfl. í sambandi við eignarskatta að undanförnu. Sverrir Hermannsson er nú eins og kunnugt er illa fjarri góðu gamni og stjórnar Landsbankanum þannig að hann hefur ekki tök á að hafa áhrif á þingflokk Sjálfstfl. frá degi til dags, enda fær hann nú frá formanni Sjálfstfl. alveg sérstakar vinarkveðjur í breiðsíðu, sem hann skrifar í Morgunblaðið, á dögunum. Væri betur að þessi skattastefna Sverris Hermannssonar, sem hefur nýst menningunni svona vel, birtist í verki á fleiri sviðum, og ég vænti þess að ég megi skilja orð hv. 2. þm.

Norðurl. e. þannig að hann sé sá maður í þingliði Sjálfstfl. sem muni beita sér fyrir því að lyfta hátt á loft því merki sem Sverrir Hermannsson hóf á loft á sínum tíma með því að skattleggja hátekjulið og stóreignamenn hér í landinu í þágu menningarstarfseminnar.