Lánskjör og ávöxtun sparifjár
Miðvikudaginn 24. janúar 1990


     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Hv. 1. þm. Vesturl. Alexander Stefánsson gat um það að þeir hafi verið í nefnd þó nokkrir þingmenn og skilað sínu áliti. Það er út af fyrir sig lofsvert. En ef það á að fá framgang í tíma verður það að koma til umfjöllunar hér á Alþingi. Það er búið að athuga þessi mál af ýmsum flokkum og jafnvel gera tillögur. Það hefur sést lítið frá hæstv. ríkisstjórn.
    Hv. 5. þm. Austurl. var að tala um að þau lán sem Atvinnutryggingarsjóður hefði lánað hefðu orðið til þess að verið væri að stela eigin fé af þeim mönnum eða þeim fyrirtækjum sem hefðu fengið þar fyrirgreiðslu. (Gripið fram í.) Ég vona að þingmaðurinn átti sig á því að þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar fór frá, þá lýstu ráðherrarnir því yfir hver um annan þveran að allt útflutningsatvinnulíf í landinu væri að stöðvast. (Gripið fram í.) Ja, það er bara staðreynd að þetta varð til þess að þau fyrirtæki sem hafa fengið fyrirgreiðslu ganga. Ég hef samband við marga af þessum mönnum og þeir segja að þetta hafi orðið til þess að bjarga sínum rekstri. Hv. 5. þm. Austurl. verður að átta sig á því við hverju þessi ríkisstjórn tók. Hitt er svo annað mál að hún hefur staðið sig blátt áfram hraklega í mörgum málum. En það breytir ekki því að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar og þeir sem þar réðu ferðinni stóðu sig ekki betur, þeir sigldu öllu í strand og þess ætti hv. 5. þm. Austurl. að vera minnugur.
    Starfandi viðskrh. er hér nú en var ekki hérna þegar ég ræddi þetta áðan. Nú kemur það í blöðum að hinn nýi Íslandsbanki er að ganga á milli fyrirtækja eða auglýsa í blöðum að þeir eru að bjóða í vextina. Þeir eru að bjóða þeim sem eiga peninga svo og svo háa vexti, fulla verðtryggingu og allt upp í 9,5%. Hvað þarf nú að lána þessa peninga út á til þess að þetta standist? Hefur hæstv. ráðherra áttað sig á því? Ætlar hæstv. ríkisstjórn virkilega að láta
þetta bara afskiptalaust? Ætlar hún bara að láta fljóta að feigðarósi í þessum málum og gera það þannig ómögulegt að vinnumarkaðurinn geti náð skynsamlegum samningum? Það er grundvallaratriði að það takist. Ráðherrar hafa sagt í viðtölum að raunvextir séu 7%. Þessir vextir eru ekki til nema í Stofnlánadeild, hjá Húsnæðisstofnun og Atvinnutryggingarsjóði. Annars er þeir ekki til, ekki til í bönkunum. Hæstu vextir þar eru 7,5% nema þessir svokölluðu kjörvextir sem aðeins þeir fá sem hafa ríkisábyrgð eða ríkið getur fengið eftir þeim reglum sem gilda.
    Ég hef nýlega séð tilkynningu um greiðslu frá einum af þeim bönkum sem mynda Íslandsbanka upp á 10,25% og það þarf enginn að segja mér að banki sem býður upp á 9,5% innlánsvexti láni út á minna en 12--13%, kannski meira. Hafa vextirnir lækkað, hæstv. ráðherra? Hverju gengum við frá þegar þessi ríkisstjórn var mynduð og hver var árangurinn?
    Nei, ég held að ríkisstjórnin verði að manna sig upp í að taka á þessum málum. Það verður að koma

í veg fyrir að allt fari á þann veg sem gerðist á þeim tíma þegar utanrrh., sem gegnir nú fyrir viðskrh., var fjmrh. Þá fór þetta á uppboð, vextirnir, og ríkisstjórnin bauð og bauð endalaust hærra og hærra til þess að koma ríkisvíxlunum út. Ég held að fólkið í landinu, og ég vona að hæstv. ráðherrar og þingmenn hafi það samband --- jarðsamband vil ég segja --- við fólkið og lífið í landinu að þeir viti um þær hörmungar sem blasa víða við, ekki einungis hjá fyrirtækjum heldur líka fjöldamörgum einstaklingum. Það er ekki hægt að líða þetta lengur. Hvernig stendur á því að þessi ríkisstjórn og fyrrv. ríkisstjórn stjórna þannig að það eru bara peningarnir sem deila og drottna? Það er ekki til í neinu landi að ég veit til sem vaxtatekjur eru skattfrjálsar. Gamall maður kom til mín núna á dögunum og sagði: Ég hafði svolitlar tekjur af landbúnaði og þess vegna fæ ég ekki tekjutrygginguna. Ef ég hefði fengið þessar tekjur af innstæðum, vaxtatekjur, þá hefði ég haldið tekjutryggingunni. Hvaða vit er í þessu öllu? Það er vit í því að lánin skulu hækka, ef hækkar áfengi, ef hækka erlendar vörur o.s.frv. En kaupið, það hækkar ekki. ( Forseti: Ég vil benda hv. þm. á að nú er komið að hefðbundnum þingflokksfundatíma og vil spyrja hann hvort hann vilji fresta ræðu sinni núna eða leitast við að ljúka henni á 1--2 mínútum.) Ég get, hæstv. forseti, lokið þessu. Ég heyri það í blöðum og fjölmiðlum að hæstv. ráðherra, ásamt öðrum ráðherra, er að ferðast um landið. Ég hef lítið heyrt af þeirra boðskap. Þeir segjast ferðast í nýju ljósi. Ef ekki verður breyting á get ég ekki betur séð en að þeir ferðist algerlega ljóslausir og þannig muni fólkið í landinu finna til ef þeirra boðskapur og viðhorf verða áfram eins og þjóðfélagið stendur nú og frammi fyrir samningum sem er verið að reyna að gera með skynsamlegu móti en geta ekki orðið vegna afskiptaleysis ríkisstjórnarinnar.