Útbreiðsla svæðisútvarps á Austurlandi
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):
    Á þskj. 238 hef ég beint fsp. til hæstv. menntmrh. um útbreiðslu svæðisútvarps á Austurlandi. Fsp. er svohljóðandi:
    ,,Hver er útbreiðsla svæðisútvarps Austurlands og hvenær má vænta að útsendingar þess nái til Austurlandskjördæmis alls?``
    Þessi nýjung í starfsemi Ríkisútvarpsins, svæðisútvörpin í hinum ýmsu landsfjórðungum, er mjög vinsæl og jákvæðasti þátturinn í hinni miklu fjölmiðlabyltingu sem verið hefur á síðustu árum. Landsbyggðarmenn eru mjög þakklátir fyrir þessa starfsemi. Hún er vinsæl og gildir þá einu hvort það er á Austfjörðum, Norðurlandi eða Vestfjörðum.
    Tilkoma þessara svæðisútvarpa hefur orðið til þess að dagskrárgerð úti á landsbyggðinni hefur aukist og þess sér m.a. stað í dagskrá Ríkisútvarpsins sem er útvarpað til landsins alls. Þetta er mjög jákvæður þáttur.
    Svæðisbundnar útsendingar njóta mikilla vinsælda eins og skoðanakannanir sanna, en sá er hængur á á Austurlandi að þessar útsendingar ná ekki til fjórðungsins alls og eru verulega stór svæði þar án þessara útsendinga. Austurlandskjördæmi er mjög stórt, eins og kunnugt er, og nær frá Langanesi suður að sýslumörkum á Skeiðarársandi.
    Þetta er slæmt fyrir svæðisútvarpið á Austurlandi þar sem m.a. þéttbýlið í Austur-Skaftafellssýslu nær ekki þessum útsendingum. Það hefur áhrif á auglýsingatekjur þessa fjölmiðils og það hefur síðan sýnt sig að þessar útsendingar ásamt svæðisbundinni blaðaútgáfu sem er veruleg úti á landi hefur þjappað landsbyggðarfólki saman um sín mál. Þess vegna er þessi fsp. borin fram um hver útbreiðslan sé og hvenær megi vænta úrbóta í þessu efni.