Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 239 hef ég borið fram fyrirspurn til samgrh. um skilyrði fyrir notkun farsíma í Austurlandskjördæmi. Fyrirspurnin hljóðar þannig, hún er í tveimur liðum:
    ,,Hvaða landsvæði eru það á Austurlandi þar sem skilyrði fyrir notkun farsíma eru ekki fyrir hendi?
    Hvaða áætlanir eru uppi um bætt skilyrði á þeim svæðum sem farsími nær ekki til nú?``
    Ég hef leyft mér að bera fram þessa fyrirspurn þó að skv. síðustu blaðafregnum sé það kannski gott að farsími nái ekki til manna. Það er hins vegar ekki allt rétt sem stendur í blöðunum og sú er staðreynd að notkun farsíma hefur rutt sér æ meir til rúms á síðari árum eins og þarf ekki að rekja. Þó að þetta tæki sé víða e.t.v. ofnotað og misnotað stendur það upp úr að farsíminn hefur reynst ómetanlegt öryggistæki á ferðum í misjöfnum veðrum og gífurlega mikilvægur þegar slys eð óhöpp ber að höndum og bílar sem eru útbúnir með farsímum eða menn sem hafa þetta tæki með höndum eru nærstaddir.
    Það hagar nú þannig til hér á landi að landið er fjöllótt og það á ekki síst við á Austfjörðum. Mjög víða hagar þannig til að farsíminn dettur út og verður óvirkur í skugga fjalla. Þetta rýrir mjög þann mikla öryggisþátt sem áður var getið og dregur mjög úr gildi hans á ýmsum landsvæðum og kannski landsvæðum sem síst skyldi.
    Fyrirspurnin er einföld. Hún fjallar um það hvort þetta hafi verið kortlagt á Austurlandi, hver útbreiðsla farsímans sé og hvaða leiðir séu til úrbóta. Mér er það fullljóst að það er ekki einfalt mál að búa þannig um hnútana að farsíminn nái undantekningarlaust til allra svæða en þó mætti áreiðanlega gera verulegar úrbætur.