Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Það er gagnlegt að fá þær upplýsingar sem hér koma fram, bæði hjá hv. fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra, varðandi Austurland sérstaklega, en það sem hvatti mig til að óska eftir að fá orðið hér voru fregnir sem maður hefur séð fljúga fyrir í blöðum nýlega um að farsími geti reynst varhugavert tæki, ég vil ekki segja hættulegt, en varhugavert, vegna þeirra hátíðnibylgna, að mér skilst, sem eru notaðar við að miðla á milli. Nú er þetta trúlega ekki beint á fagsviði hæstv. samgrh. Kannski heyrði þetta frekar undir hæstv. heilbrrh., en ég vil nefna það vegna þess að farsíma ber hér á góma og þetta hefur nýlega komið fram.