Skoðanakannanir
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hv. þm., fyrirspyrjanda, var samþykkt hér þál. 20. maí 1988. Hún var send forsrn. með bréfi dags. 28. sama mánaðar og var afgreidd, minnir mig, 20. júní eða í júnímánuði til dómsmrn. með ósk um það að dómsmrn. afgreiddi þetta mál og skipaði nefnd í því skyni eins og farið var fram á í samþykkt Alþingis.
    Ég hef látið kanna hvað síðan hefur orðið um þetta mál og í ljós kemur að samkomulag varð um það á milli dómsmrn. og menntmrn. að menntmrn. framkvæmdi þessa athugun. Út af fyrir sig er ekkert við það að athuga, og það byggði á því að félagsvísindadeild Háskóla Íslands á þarna stóran þátt í. Menntmrh. gaf síðan út um þetta fréttatilkynningu dagsetta 9. jan. 1990 og þar segir að menntmrh. hafi ákveðið að skipa nefnd með fulltrúum eftirgreindra aðila: Dóms- og kirkjumrn., félagsvísindadeildar Háskóla Íslands, heimspekideildar Háskóla Íslands, Blaðamannafélags Íslands og Gallup á Íslandi. Leitað mun hafa verið eftir tilnefningum í þessa nefnd. Þær voru ekki komnar a.m.k. fyrir tveimur dögum en kunna að hafa komið síðan. E.t.v. getur hæstv. menntmrh. upplýst það nánar.
    Nefndinni er falið að framkvæma það sem í þál. segir: ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er kanni hvort rétt sé að setja lög eða koma á reglum um skoðanakannanir.`` Eins og jafnframt kom hér fram á nefndin að athuga hvort fullnægjandi sé að koma á fót samstarfi þeirra sem fást við gerð skoðanakannana og tryggja að þeir setji sér starfs- og siðareglur sem eftir verði farið án þess að lagasetning komi til.
    Ég vil að lokum lýsa því að ég er mjög sammála hv. fyrirspyrjanda. Ég held að það sé afar nauðsynlegt að setja reglur um skoðanakannanir og mér þykir slæmt að dregist hefur að setja nefndina á fót en frá forsrn. fór bréfið án tafar og við töldum að það ætti að vera í dómsmrn. eða það taldi þáv. hæstv. forsrh. Eins og ég sagði áðan er ekkert við það að athuga eftir að samkomulag er orðið á milli þessara tveggja ráðuneyta um framkvæmd tillögunnar og ég vona að út úr henni komi það sem hv. fyrirspyrjandi augljóslega ætlast til, reglur um skoðanakannanir.